miðvikudagur, 19. mars 2008

Páskaföndrið


Ég er ekki vön að skreyta fyrir hátíðarnar, hvorki jól né páska. Þegar ég var í námi snérist heimilið á annan endann á meðan ég barðist við verkefnaskil og þannig fékk það að vera á meðan ég flúði í ilmandi hreina paradísina hjá mömmu. Eftir að námi lauk snérist lífið um vinnu vinnu vinnu og enginn tími gafst í huggulegar stundir við eldhúsborðið með skrautlegan pappír, greinar og glingur. Enda kannski áhuginn ekki mikill.

En nú þegar ég er orðin virðuleg (ahem) fjölskyldumanneskja finnst mér eins og mér beri einhvers konar skylda til að skreyta heimilið lítillega, og einhvernvegin er eins og áhuginn hafi kviknað að sjálfu sér. En lífið snýst enn um vinnu vinnu vinnu, auk alls hins sem skiptir miklu meira máli; barnið, fjölskylduna, langþráðan svefninn og eitthvað annað sem ég er búin að gleyma.

Þess vegna er gott að kunna föndur sem föndrar sig sjálft á meðan maður bíður. Það eina sem þú þarft að gera er að taka nokkur hvít egg, vefja laukhýði utan um þau, pakka hverju og einu inn í tusku eða nælonsokk og sjóða í 15 mínútur (gætið þess að vatnið fljóti vel yfir bögglana). Veiðið upp úr vatninu, látið kólna á disk og opnið svo.

Útkoman verður eitthvað á þessa leið:


Næsta ár ætla ég að prófa mig áfram með fleiri liti, nota t.d. rauðlaukshýði eða rauðrófur, kaffi og túrmerik. Ef þið viljið gera aðeins meira úr þessu er hægt að ná fram alls kyns mynstrum með því að nota laufblöð, blóm og hvað sem manni dettur í hug.Þetta sáum við á Ohdeedoh.

Stundum er maður bara allt of önnum kafinn og til að samviskubitið nagi mann ekki inn að beini má reyna að líta á nánasta umhverfi sitt nýjum augum. Páskarnir eru gulir, ekki satt? Et voilá, falleg páska innsetning við eldhúsvaskinn minn.

Engin ummæli: