Sýnir færslur með efnisorðinu Brjóstagjöf. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Brjóstagjöf. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 9. október 2008

Brjóstagjafavikan 2008


Nú stendur yfir hin alþjóðlega brjóstagjafavika og er hún haldin hátíðleg á Íslandi dagana 6.-12. október. Þemað í ár er stuðningur, stuðningur við hina mjólkandi móður. Á heimasíðu vikunnar segir meðal annars:

Þegar mæður með börn á brjósti fá nægan stuðning græða allir í samfélaginu. Börnin græða á því að fá bestu fæðu sem völ er á, sérhannaða til þess að tryggja heilbrigðan vöxt og þroska barnsins. Ávinningur fyrir móður er einnig mikill. Brjóstagjöf dregur meðal annars úr streitu, minnkar líkur á fæðingarþunglyndi, styrkir tengslamyndun við barnið og dregur úr líkum á brjóstakrabbameini. Stórfjölskyldan græðir á því að hafa ánægðara og glaðbeittara barn í kringum sig og vinnuveitendur græða á því að fjarvistir frá vinnu vegna veikinda eru færri, heilbrigðiskerfið græðir af því að brjóstabörn þurfa síður að leggjast inn á spítala. Samfélagið í heild græðir á því að styðja við mæður með barn á brjósti.

Ýmsan fróðleik er að finna á síðunni, og einnig dagskránna, en hana má nálgast með því að smella hér.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Njóttu brjóstagjafaþokunnar


Á Amazon.com fann ég tilvaldna gjöf handa einhverri af nokkrum vinkonum mínum sem eru með barni. Gjöf sem ég hefði alveg viljað eiga í öllu panikinu þegar mitt kríli fæddist.

Ég átti voðalega erfitt með að muna allt og ekkert, hvort sem það var hvenær barnið drakk, svaf lengi eða lítið, ropaði kröftuglega eða voða lítið, hvort ég las blaðið eða ekki og hvort ég þvoði mér yfir höfuð eða skipti um föt (gerði það nú en segi bara svona).

Itzbeen Baby Care Timer er með nokkrar stillingar. Allt í allt eru 4 minnismöguleikar þannig að hægt er að stilla hvenær var skipt seinast á barninu, hvenær það borðaði síðast, hvenær það sofnaði eða fékk t.d. lyfin sín. Einnig er tækið með takka sem heldur utan um á hvort brjóstið barnið var lagt á síðast.

Tækið vann iParenting Media Award árið 2007.

Tækið er hægt að panta á Amazon.com

mánudagur, 11. ágúst 2008

Brjóstagjöf

Það mætti ætla að brjóstagjöf væri það auðveldasta í heimi. Hvað gæti verið eðlilegra en að móðir og nýfætt barn hennar njóti brjóstagjafarinnar frá fyrsta augnabliki þeirra saman eftir fæðinguna? Samt sem áður eru margar konur sem eiga í miklum vandræðum með einmitt þetta. Sárar, blæðandi geirvörtur og ótrúlegur sársauki 8-10 sinnum á sólarhring ofaní hormónarússíbanann fyrstu vikurnar getur reynst sumum of mikið og þær gefast upp og grípa til pelans. Ég get sagt fyrir mitt leyti að eftir um 6 vikur var ég við það að gefast upp en fékk að lokum ótrúlega góða hjálp og endaði á því að vera með son minn á brjósti í 14 mánuði. Eftir að ég komst upp á lagið með að láta hann taka brjóstið rétt var þetta einmitt það auðveldasta í heimi og ótrúlega góð upplifun. Það er hægt að lesa sér til um brjóstagjöf bæði í bókum og á ýmsum vefsíðum til að undirbúa sig, til dæmis hérna. Ég hafði þó lesið allt sem ég komst í fyrir fæðinguna og sérstaklega eftir fæðinguna en það var ekki fyrr en ég sótti námskeið þar sem mér var sýnt nákvæmlega hvað ég átti að gera að mér tókst að láta hann taka brjóstið rétt. Og þvílík tilfinning að geta gefið barninu sínu brjóst án þess að langa til að öskra af sársauka! Á þessum tíma bjuggum við í London en það er auðvitað hægt að fá hjálp á ýmsum stöðum hérlendis. Boðið er upp á námskeið fyrir fæðinguna og einnig eru ráðgjafar til staðar á spítulunum (spurðu ljósmóðurina þína um þessa þjónustu). Það mikilvægasta er að leita sér hjálpar ef þú ert í vandræðum því það er nógu erfitt að sjá um nýfætt barn án þess að vera með áhyggjur af þessu líka.