mánudagur, 11. ágúst 2008

Brjóstagjöf

Það mætti ætla að brjóstagjöf væri það auðveldasta í heimi. Hvað gæti verið eðlilegra en að móðir og nýfætt barn hennar njóti brjóstagjafarinnar frá fyrsta augnabliki þeirra saman eftir fæðinguna? Samt sem áður eru margar konur sem eiga í miklum vandræðum með einmitt þetta. Sárar, blæðandi geirvörtur og ótrúlegur sársauki 8-10 sinnum á sólarhring ofaní hormónarússíbanann fyrstu vikurnar getur reynst sumum of mikið og þær gefast upp og grípa til pelans. Ég get sagt fyrir mitt leyti að eftir um 6 vikur var ég við það að gefast upp en fékk að lokum ótrúlega góða hjálp og endaði á því að vera með son minn á brjósti í 14 mánuði. Eftir að ég komst upp á lagið með að láta hann taka brjóstið rétt var þetta einmitt það auðveldasta í heimi og ótrúlega góð upplifun. Það er hægt að lesa sér til um brjóstagjöf bæði í bókum og á ýmsum vefsíðum til að undirbúa sig, til dæmis hérna. Ég hafði þó lesið allt sem ég komst í fyrir fæðinguna og sérstaklega eftir fæðinguna en það var ekki fyrr en ég sótti námskeið þar sem mér var sýnt nákvæmlega hvað ég átti að gera að mér tókst að láta hann taka brjóstið rétt. Og þvílík tilfinning að geta gefið barninu sínu brjóst án þess að langa til að öskra af sársauka! Á þessum tíma bjuggum við í London en það er auðvitað hægt að fá hjálp á ýmsum stöðum hérlendis. Boðið er upp á námskeið fyrir fæðinguna og einnig eru ráðgjafar til staðar á spítulunum (spurðu ljósmóðurina þína um þessa þjónustu). Það mikilvægasta er að leita sér hjálpar ef þú ert í vandræðum því það er nógu erfitt að sjá um nýfætt barn án þess að vera með áhyggjur af þessu líka.

Engin ummæli: