Sýnir færslur með efnisorðinu Uppskriftir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Uppskriftir. Sýna allar færslur

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Einfalt og fljótlegt


Öll viljum við elda hollan og góðan mat fyrir börnin okkar. En oft er tíminn krappur, orkan lítil og þolinmæði allrar fjölskyldunnar á þrotum eftir langan og strangan dag í vinnu, skóla og leikskóla. Þá er gott að eiga nokkra fljótlega og einfalda rétti í pokahorninu sem bragðast vel, þó svo þeir séu kannski ekki alveg þeir allra hollustu. Hér á eftir koma nokkrar hugmyndir sem vert væri að prófa.
Pasta:
- Sjóðið pasta og hendið skornu spergilkáli ofan í pastavatnið seinustu tvær mínúturnar. Hellið vatninu af og bætið tómötum (e.t.v. sólþurrkuðum), ristuðum furuhnetum og skvettu af ólívuolíu ofaní pottinn. Smakkið til með salti og pipar. Einhverjir fjölskyldumeðlimir gætu viljað tómatsósu með.
-Sjóðið pasta, sigtið vatnið frá og setjið pastað aftur ofaní pottinn. Setjið strax bita af reyktum lax eða silung ofaní pastað. Ólífuolía, salt og pipar, sítrónusafi.
Þessar tvær uppskriftir fékk ég hjá þriggja barna móður sem ég vinn með og þær vekja alltaf mikla lukku hjá hennar börnum.
-Sjóðið pasta og ristið á meðan gróft hakkaðar möndlur á pönnu. Þegar möndlurnar eru ristaðar, notið sömu pönnu til að steikja beikon (sparið uppvaskið). Hellið vatninu af pastanu, hrærið pestó við, skellið hökkuðum tómötum ofaní og möndlunum. Setjið á diska og stráið parmesan og stökkum beikonbitum yfir (ég nota skæri til að skera beikonstrimlana í litla bita).
Þessa uppskrift notaði ég mikið á námsárunum, einföld, fljótleg, ódýr og bragðgóð.
Matmikil eggjakaka:
-Hrærið saman eggjum og örlitlu af mjólk (fjöldi eggja fer eftir stærð fjölskyldunnar). Setjið út í það sem er til í ísskápnum, t.d.
Laukur, pylsubitar og gular baunir
Vorlaukur, tómatar og ostur
Steikið á pönnu, berið e.t.v. fram með góðu brauði og smá salati.
Cous cous salat:
Þessi er kannski ekkert sérstaklega barnvæn, en ég læt hana fylgja með sökum þess hve ótrúlega auðveld og bragðgóð hún er. Ég geri þetta t.d. oft í hádeginu í vinnunni því það er engin eldamennska í henni, bara hræra saman góðu hráefni.
- Setjið cous cous í skál og hellið sjóðandi vatni (úr katlinum á kaffistofunni) yfir. Hellið smá ólífuolíu yfir og salti. Á meðan cous cous-ið liggur í bleyti, skerið niður t.d. tómata, avocado, rauðlauk. Blandið saman við cous cous-ið. Bætið við t.d. furuhnetum, fetaosti, klettasalati og hverju sem ykkur dettur í hug. Bragðbætið með balsamic ediki.
Svo læt ég eina ofur einfalda eplaköku fylgja með í lokin:
- Deig:
175 g brætt smjörlíki
175 g hveiti
85 g sykur
1 tsk lyftiduft
- Fylling:
ca. 250 g epli (í súrari kantinum)
2 msk sykur
2 msk kanill
Blandið hveiti, sykri og lyftidufti saman í skál og hrærið smjörlíkinu saman við
Pressið deigið út í eldfast mót (munið að smyrja mótið ef þess er þörf)
Skrælið eplin og skerið í þunna báta
Dreifið eplabátunum á tertubotninn
Bakið í 20-25 mínútur við 225°c
Berið fram volga tertuna með ís eða rjóma

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Frostpinnar fyrir sólbitnar mömur


Það er aldeilis búið að vera bongóblíða hérna á suðvesturhorninu og vonandi hjá ykkur hinum líka. Svo mikil blíða að maður getur verið úti léttklæddur langt fram á kvöld og jafnvel snætt úti án þess að vera í dúnúlpu.
Það er mikill spenningur heima hjá mér að búa til frostpinna og má gera þá úr ýmsum ávöxtum eins og jarðaberjum, kíwí, appelsínum, eplum og svo mætti lengi telja, ávaxtasafa, jógúrt með smá slettu af flórsykri til að gera þá eilítið sæta fyrir þá sem vilja og eru þeir mjög vinsælir meðal yngra fólksins.
En á síðunni food+flower+style fann ég eðaluppskrift fyrir okkur í eldri kantinum sem ég prófaði og voru ljúffengir.
Frostpinnar fyrir sólbitnar mömmur
2 stór Mangó
1/4 bolli Lime safi eða vatn
1 lítill þurrkaður chilli (chile de arbol) fræhreinsaður
1 líter vanillur eða kókós ís
Taktu ísinn úr frystinum
Skerðu mangó í blender settu safann með, blandaðu þangað til hann er orðinn silkimjúkur.
Bættu við chilli og blandaðu þangað til hann er orðinn vel brytjaður niður
Settu ísinn í skál og hrærðu í þangað til hann er orðinn mjúkur en ekki bráðnaður
Bættu við púrrunni og settu í frostpinnaform og í frysti.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Jarðaberjalímonaði

yammi þetta er svo gott í allri sólinni hérna á Fróni.

Mér finnst límonaði alveg svakalega gott og þegar ég fer til Bandaríkjanna lifi ég á trönuberjasafa og límonaði, kem heim með glerungslausar og súrar tennur svona næstum því.

En þetta gúmmelaði hef ég gert í sólinni handa mér þar sem ég er yfirleitt ein heima seinnipartinn og líkað svona líka vel við.

Innihald:
1 box jarðaber fersk
8 msk. hrásykur
2 tsk. flórsykur
1.5 bolli nýkreistur sítrónusafi
Sódavatn

Aðferð.
Áður en þið kreistið/pressið safann úr sítrónunum, rúllið þeim létt með lófanum á eldhúsbekknum. Þetta eykur flæðið í safanum í sítrónunni og gerir kreistuna/pressuna auðveldari. Gott er að nota safapressu. Setjið í könnu.
Setjið jarðaberin og 2 tsk flórsykur í blandara og blandið saman.

Allt sett í könnu ásamt sítrónusafanum, sykrinum og fyllið með sódavatni (ca.1-1.5 l.) Bíðið þangað til sykurinn leysist upp, hrærið af og til í. Gott að setja meiri sykur ef ykkur finnst þetta enn of súrt.

sunnudagur, 8. júní 2008

Litlir listamenn

Við viljum öll leyfa sköpunargleði barna okkar að njóta sín og ég veit að strákurinn minn elskar að mála. Stundum er maður bara ekki alveg í stuði til að eyða helmingi meiri tíma í að laga til og þrífa eftirá en fór í listsköpunina sjálfa. Þá er gott að það er komið sumar og það er hægt að sleppa sér lausum utandyra. Hér er uppskrift að eins konar krítarmálningu sem er auðvelt að gera (af library collective):

Setjið 1/4 bolla af maísmjöli í nokkur ílát (sultukrukkur, skyrdollur, gosflöskur sem búið er að skera toppinn af, eða bara hvað sem þið eigið í eldhúsinu).

Hrærið 1/4 bolla af vatni út í maísmjölið (það gæti tekið smá tíma að fá það til að blandast vel, passið bara að setja maísmjölið í ílátin á undan vatninu).

Þegar blandan er orðin fín, bætið þá nokkrum dropum af matarlit útí hvert ílát. Endilega leikið ykkur líka með mismunandi litasamsetningar og styrk litanna.


Þá er ekkert eftir nema að byrja! Ef þið verðið leið á listaverkunum úti á stétt er ekkert mál að sprauta vatni yfir þau og þau hverfa eins og dögg fyrir sólu. En þar sem við búum á Íslandi er lítil hætta á að rigningin sjái ekki um þessa hlið málanna fyrir okkur.

Mangó Lassi


Hér kemur uppskrift af Mangó Lassi.

Þetta er uppskrift sem ég geri yfirleitt alltaf og ef ég nota hann sem eftirrétt set ég stundum öggulítið af kardimommufræjum eða dropum í hann og set hann í smástund í frystinn og ber fram með t.d. jarðaberjum og bláberjum.


250 ml. ab-mjólk
130 ml. mjólk
3 fersk og vel þroskuð mangó (hef einnig sett smá mangódjús ef úrvalið af mangó er ekki upp á marga fiska)
4 tsk. hrásykur (hef einnig oft sleppt sykrinum sem er líka mjög gott)
Sumir setja smá salt.


En þar sem ég er með mjólkuróþol hef ég notað Rísmjólk og þá er best að nota mjólkina frá Provamel eða bara ab-mjólkina.


laugardagur, 7. júní 2008

Mangó Kokteill



Á The Kitchn fundum við þessa girnilega uppskrift af mangó kokteil. Á veturna geri ég oft Mangó Lassi og nota í eftirrétt eða bara til að drekka því mér finnst hann alveg ótrúlega ljúffengur. En nú er komið sumar og þá er kannski svolítið þungt í magann að drekka Mangó Lassi meðan bóndinn teigar bjór við grillið.


Þessi kokteill er því tilvalinn við grillið í sumar
Mangó Kokteill fyrir 1
30 ml.fersk mangó púrra- gerð með fersku Mangó*
45 ml. vodka
30 ml. sítrónusafi**

30 ml. heimalagað síróp ***
60 ml. kalt sódavatn
Mangó sneiðar og sítrónustrimlar

Setjið í hristara Mangó safa, vodka, sítrónusafa, síróp, klaka og hristið þangað til að það er vel blandað.
Setjið í glas fyllt af ís og fyllið upp í glasið með köldu sódavatni. Skreytið með mangósneiðum og sítrónustrimlum.
*Mangó Púrra: Meðalstórt mangó = 1 bolli skorinn í teninga=1/2 bolli púrra
**Ferskur sítrónu djús: 1 meðalstór sítróna= ca. 60 ml. safi
***Síróp: Blandið saman 1:1 vatni og sykri. Látið suðuna koma upp og setjið þá sykurinn í vatnið og látið hann leysast upp og kælið.
Og ef maður er ekki í stuði fyrir vodka þá má alveg gera hann áfengislausann, hann er alveg jafngóður þannig.

mánudagur, 2. júní 2008

Heimatilbúið


Það er ýmislegt hægt að búa til heima til að hafa ofanaf fyrir börnunum okkar. Gömlu góðu sápukúlurnar geta verið endalaus skemmtun; hver getur blásið stærstar/flestar og svo er auðvitað gaman að elta þær líka. Ég fann þessa barn(augna)vænu uppskrift að sápukúlulegi á Wikipedia.

60 ml barnasjampó
200 ml vatn
45 ml maís síróp (veit ekki hvort aðrar sírópsgerðir virka)


Nú svo er auðvitað trölladeigið, sem er svo rammsalt að fæst börn fá sér aftur eftir að hafa bragðað á því einu sinni. Flestir hafa einhvern tíman búið þetta til, en það sakar ekki að rifja upp uppskriftina:
1 bolli vatn
1 bolli hveiti
1 bolli salt
1 msk matarolía
svo má bæta við matarlit, ef vill, hér á myndinni hefur líka verið sett smá glimmer með - ekki slæm hugmynd fyrir litlar prinsessur!

sunnudagur, 25. maí 2008

Mjólkurlaus súkkulaðikaka

Mér finnst góð súkkulaðikaka alveg ómótstæðileg með ískaldri mjólk eða góðum cappucino. En þar sem ég og guðsonur minn megum ekki neyta mjólkur ákvað ég í tilefni afmæli hans að aðlaga uppáhaldskökuna að okkur. Já og ég borða ekki dökkt súkkulaði og þ.a.l. ekki franskar súkkulaðikökur en allir tala um hvað þær er lostætar þannig að snéri franskri súkkulaðiköku við og gerði hana að minni súkkulaðiköku.

4 egg
2 dl. hrásykur
130 gr. kókosolía
1 plata suðusúkkulaði
0.5 plata 56% konsum súkkulaði (Nóa Síríus)
0.5 plata 70% konsum súkkulaði (Nóa Síríus)
1 dl. hveiti
Egg og sykur hrærð vel saman.
Kókosolía og súkkulaði brætt saman. Blandað síðan rólega saman við eggin og sykurinn.
Hveitinu síðan bætt saman við.
Bakað á 180-200° í 30-40 mín.

Krem.
0.5 dl. bráðin kókosolía
1 plata suðusúkkulaði
0.5 plata 56% Konsum súkkulaði
05. plata Orange Konsum súkkulaði eða 70 % Konsum súkkulaði
2 msk Síróp

Brætt saman og borið á volga kökuna.
Skreyta má með allskyns berjum og borða í okkar tilfelli með gervirjóma frá Kötlu og góðum Soya Latte.

föstudagur, 25. apríl 2008

Limoncello tagliatelle

Þessi uppskrift er alveg jafn himnesk og hún er óholl. Hún er mjög fljótleg og um að gera að nota afgangs kjúkling t.d. frá deginum áður.

Fyrir 2.
250 gr. Tagliatelle
Soðið í vatni í ca. 8-10 mín. þangað til það er al dente. (aðeins hart í miðjunni), salt sett í vatnið þegar það er byrjað að sjóða.

2.5 dl. matreiðslurjómi
Sítrónubörkur af hálfri sítrónu
1 hvítlauksgeiri
Sítrónupipar, smá sletta
1 búnt basilica
0.5 dl Limoncello
2.5 dl. Parmeggiano/Grana

Matreiðslurjómi, sítrónubörkur, sítrónupipar og hvítlauksgeiri settur á pönnu við miðlungshita og hitað í ca. 3 mín.
Limoncello sett útí og látið malla saman í ca. 10 mín. Þá er söxuð basilica sett útí og börkur ásamt hvítlauksgeira fjarlægður. Síðan er pastað sett útí ásamt ostinum.

Kjúklingur sem ég notaði var bringa frá deginum áður. Hana eldaði ég í ofni og kryddaði með engifer, hvítlauk og steinselju og safa úr einni sítrónu. Síðan skar ég hana bara í litlar sneiðar og raðaði í kringum pastað á disk.

Þetta er alveg ótrúlega góður réttur og held ég að Limoncello fáist í ÁTVR, ef svo óheppilega vill til að það fáist ekki má setja sítrónusafa með smá slettu af hungangi eða sírópi. En Limoncello er ítalskur sítrónulíkjör og alveg ótrúlega ljúffengt að fá sér svo eitt staup og einn expresso í eftirrétt.

miðvikudagur, 23. apríl 2008

Kjúklingur (eða bara hvað sem er) í karrý


Ég kem öllu ofan í strákinn minn ef ég fer eftir þessari uppskrift í grundvallaratriðum.

Innihald:
1 pakki kjúklingalundir eða kjúklingabringur skornar í strimla
2 msk. ólívuolía
1 tsk. karrí
1 stk. laukur
10 stk. kirsuberjatómatar, skornir í helminga
ca 1/2 poki baby- gulrætur
6 stk. kartöflur
salt og pipar eftir smekk (má bæta við eftirá)
1,5 dl. vatn
1 dós kókosmjólk (stór)
steinselja

Aðferð:
1. Olían er hituð og látin krauma með karríinu.
2. Kjúklingurinn er settur í pottinn.
3. Laukur er brytjaður, kartöflur skornar í bita og sett í pottinn ásamt gulrótunum.
4. Kryddið með salti og pipar og setjið vatnið út í.
5. Látið malla á lágum hita í 10-15 mín.
6. Hellið kókosmjólkinni í pottinn og setjið tómatana og hakkaða steinselju út í.
7. Látið malla áfram á lágum hita í 10-15 mínútur.
8. Borið fram með brúnum hrísgrjónum og salati.

Strákurinn minn elskar litlu gulræturnar og ég geri yfirleitt extra mikið af þeim því hann heldur áfram að biðja um meira og meira. Ég hef líka gert þessa uppskrift með lambakjöti og ýsu og er framgangsmátinn nákvæmlega sá sami. Það er líka hægt að nota hvaða grænmeti sem er í þetta, sveppir eru til dæmis mjög góðir, spergilkál, paprikur og hvað sem manni dettur í hug. Þegar graskerin fengust í búðunum prófaði ég að nota það og mæli sérstaklega með því.
Að lokum vil ég nefna að strákurinn minn er með mjólkurofnæmi og þessi uppskrift hentar einmitt vel fyrir hann. Við notum kókosmjólk í flesta rétti sem við notuðum rjóma í áður og hefur það gefið okkur góða raun.