fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Einfalt og fljótlegt


Öll viljum við elda hollan og góðan mat fyrir börnin okkar. En oft er tíminn krappur, orkan lítil og þolinmæði allrar fjölskyldunnar á þrotum eftir langan og strangan dag í vinnu, skóla og leikskóla. Þá er gott að eiga nokkra fljótlega og einfalda rétti í pokahorninu sem bragðast vel, þó svo þeir séu kannski ekki alveg þeir allra hollustu. Hér á eftir koma nokkrar hugmyndir sem vert væri að prófa.
Pasta:
- Sjóðið pasta og hendið skornu spergilkáli ofan í pastavatnið seinustu tvær mínúturnar. Hellið vatninu af og bætið tómötum (e.t.v. sólþurrkuðum), ristuðum furuhnetum og skvettu af ólívuolíu ofaní pottinn. Smakkið til með salti og pipar. Einhverjir fjölskyldumeðlimir gætu viljað tómatsósu með.
-Sjóðið pasta, sigtið vatnið frá og setjið pastað aftur ofaní pottinn. Setjið strax bita af reyktum lax eða silung ofaní pastað. Ólífuolía, salt og pipar, sítrónusafi.
Þessar tvær uppskriftir fékk ég hjá þriggja barna móður sem ég vinn með og þær vekja alltaf mikla lukku hjá hennar börnum.
-Sjóðið pasta og ristið á meðan gróft hakkaðar möndlur á pönnu. Þegar möndlurnar eru ristaðar, notið sömu pönnu til að steikja beikon (sparið uppvaskið). Hellið vatninu af pastanu, hrærið pestó við, skellið hökkuðum tómötum ofaní og möndlunum. Setjið á diska og stráið parmesan og stökkum beikonbitum yfir (ég nota skæri til að skera beikonstrimlana í litla bita).
Þessa uppskrift notaði ég mikið á námsárunum, einföld, fljótleg, ódýr og bragðgóð.
Matmikil eggjakaka:
-Hrærið saman eggjum og örlitlu af mjólk (fjöldi eggja fer eftir stærð fjölskyldunnar). Setjið út í það sem er til í ísskápnum, t.d.
Laukur, pylsubitar og gular baunir
Vorlaukur, tómatar og ostur
Steikið á pönnu, berið e.t.v. fram með góðu brauði og smá salati.
Cous cous salat:
Þessi er kannski ekkert sérstaklega barnvæn, en ég læt hana fylgja með sökum þess hve ótrúlega auðveld og bragðgóð hún er. Ég geri þetta t.d. oft í hádeginu í vinnunni því það er engin eldamennska í henni, bara hræra saman góðu hráefni.
- Setjið cous cous í skál og hellið sjóðandi vatni (úr katlinum á kaffistofunni) yfir. Hellið smá ólífuolíu yfir og salti. Á meðan cous cous-ið liggur í bleyti, skerið niður t.d. tómata, avocado, rauðlauk. Blandið saman við cous cous-ið. Bætið við t.d. furuhnetum, fetaosti, klettasalati og hverju sem ykkur dettur í hug. Bragðbætið með balsamic ediki.
Svo læt ég eina ofur einfalda eplaköku fylgja með í lokin:
- Deig:
175 g brætt smjörlíki
175 g hveiti
85 g sykur
1 tsk lyftiduft
- Fylling:
ca. 250 g epli (í súrari kantinum)
2 msk sykur
2 msk kanill
Blandið hveiti, sykri og lyftidufti saman í skál og hrærið smjörlíkinu saman við
Pressið deigið út í eldfast mót (munið að smyrja mótið ef þess er þörf)
Skrælið eplin og skerið í þunna báta
Dreifið eplabátunum á tertubotninn
Bakið í 20-25 mínútur við 225°c
Berið fram volga tertuna með ís eða rjóma

Engin ummæli: