Sýnir færslur með efnisorðinu Góð hugmynd. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Góð hugmynd. Sýna allar færslur

föstudagur, 27. mars 2009

Gaman á hönnunardögum

Endilega kíkja í gömlu Rúgbrauðsgerðina um helgina!

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Taubleiubrot

Ég á von á mínu öðru barni innan skamms og ég hef verið að íhuga að nota taubleiur, allavega að hluta til. Ég uppgötvaði hvílíkur frumskógur taubleiuheimurinn er þegar ég fór að kynna mér málið, en ég ákvað að kaupa bara eitt eða tvö stykki af nokkrum mismunandi tegundum, sjá svo hvað mér líkar best að nota og kaupa þá fleiri af þeim. Ég á núna tvær vasableiur úr krónunni í stærð xs, eina "all in one" og eina vasableiu frá Mommy's touch, þær koma bara í einni stærð, eina vasableiu frá Bumgenious í minnstu stærð og fyrir þetta allt saman hef ég keypt ýmis konar innlegg í mismunandi stærðum, úr bæði microfiber og hamp. Svo ætla ég að kaupa eins og tvennar bleiubuxur til að nota með gömlu góðu gasbleiunum. Þær þarf auðvitað að brjóta saman eftir kúnstarinnar reglum en þar sem það eru hátt í 30 ár síðan móðir mín átti bleiubörn var fátt um svör þegar ég spurði hana hvernig maður bæri sig að. Sem betur fer er nú hægt að finna allt á internetinu, svo hér er hlekkur á myndband sem sýnir taubleiubrot fyrir nýfædd börn, og hér hvernig bleian er sett á.

föstudagur, 12. desember 2008

Kreppu gjafamiðar


Þessa fallegu miða sáum við á blogginu hjá OhJoy. Þetta er ótrúlega flott lausn í kreppunni!

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Listaverk beint úr prentaranum II

Ég var svo hrifin af færslunni hennar Hörpu, "listaverk beint úr prentaranum" að ég ákvað að prófa sjálf. Listaverkið er gert úr 36 A4 blöðum og hangir það nú á besta stað í stofunni.

fimmtudagur, 16. október 2008

Handgerð leikföng

Etsy.com er síða þar sem handlagnir einstaklingar geta selt handgerðar vörur. Þar er hægt að finna ógrynni af barnavörum, þar á meðal leikföng. Ég ætla nú ekki að fara að leggja til að við förum að eyða krónunum okkar í rándýra vöru í dollurum (spurning hvort það sé nokkuð hægt jafnvel), en hér má þó finna innblástur að heimagerðum jólagjöfum.

Púslufiðrildi frá usnavyretiredvet.

Fíll á hjólum frá Cookie Dough.

Prjónuð skjaldbaka frá Happy Whosits.Rugguhestur frá Little Sapling Toys.

mánudagur, 22. september 2008

Öðruvísi lausnir í barnaherbergið

Það er enginn vafi á því að það er úr mörgu að velja þegar kemur að því að velja húsgögn í barnaherbregið. Sumum finnst úrvalið þó ekki nóg, og mörgum blöskrar verðlagið. Hvernig væri að virkja ímyndunaraflið og velja óhefðbundnar lausnir? Þannig er jafnvel hægt að spara heilmikinn pening og gera sitt fyrir umhverfið í leiðinni. Þetta sérstaka loftljós er til dæmis búið til úr gamalli þvottavélatromlu.

Hér hefur gamalt sófaborð verið nýtt undir leikfangaflóð barnsins á heimilinu. Kubbar og annað slíkt fá sinn stað í fötum undir borðinu og bækur, púsluspil og fleira sóma sér vel ofaná því. Sófaborð hafa einmitt mjög þægilega hæð fyrir börnin að sitja eða standa við á meðan þau kubba eða púsla.


Hér er annað skemmtilegt ljós sem gæti sómað sér vel í herbergi lítils ævintýrafólks. Maður gæti verið heppinn að finna eitthvað svona í Góða Hirðinum fyrir lítinn pening.

Nú svo má alltaf búa eitthvað til sjálfur, og yfir á Ohdeedoh er nú samkeppni í gangi um besta saumaverkefnið. Keppendur senda inn myndir af teppum, töskum, leikföngum eða öðru sem þeir hafa saumað og þar geta handlagnir sótt innblástur fyrir hina ýmsu hluti, t.d. bútasaumsteppi.

föstudagur, 12. september 2008

Ikea Hacker


Ikea Hacker er síða þar sem handlagið fólk getur sent inn myndir af hlutum sem það hefur búið til úr húsgögnum og öðru sem keypt hefur verið í Ikea. Við höfum áður skrifað um skiptiveski sem búið var til úr geisladiskamöppu, og nú fundum við þennan krúttlega barnafataskáp sem búinn var til úr lítilli bókahillu. Smellið hér til að nálgast leiðbeiningarnar.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Leiðist krökkunum?

Hvernig væri að stinga upp á að þau byggðu meistaraverk úr tannstönglum og kennaratyggjói, eins og KidsHaus stingur upp á? Kannski leynist lítill arkitekt eða verkfræðingur á þínu heimili!

föstudagur, 18. júlí 2008

Litlir listamenn, stór listaverk



Ertu stundum í vandræðum með hvað þú átt að gera við listaverkin sem litlu listamennirnir þínir færa þér? Er ísskápshurðin troðfull nú þegar? Manuela og Dario hafa gefið listaverkum barna sinna heiðursess á heimili þeirra og eins og sjá má á efri myndinni þarf ekki að kosta miklu til eða hafa mikið fyrir því. Þarna er myndin einfaldlega "römmuð inn" með málningateipi.


Mér finnst líka góð hugmynd að taka litlar teikningar og stækka þær margfalt í ljósritunarvél, með svipaðri útkomu og andlitsmyndirnar hér fyrir neðan.


fimmtudagur, 26. júní 2008

Að læra stafina

Ég og strákurinn minn vorum að koma úr tveggja ára afmæli hjá syni vinkonu minnar. Það var auðvitað ofsalega spennandi að fá að skoða dótið hans og ég sat inni í barnaherbergi með þeim tveimur guttum í smástund. Afmælisbarnið átti kassa fullan af eins konar gúmmíbókstöfum og rétti mér stoltur einn og sagði Ká! Og viti menn, það var einmitt stafurinn K sem hann hafði rétt mér. Ég fór að sýna honum aðra stafi og spyrja hvað þeir hétu, og alltaf kom hann með réttan staf. Mér fannst þetta alveg stórkostlegt og um leið og minn litli var sofnaður settist ég við tölvuna til að sjá hvar ég gæti fengið svona. Mér tókst nú ekki að finna þá í neinni íslenskri búð, en ég er nú viss um að þeir fáist í flestum leikfangaverslunum og jafnvel bókaverslunum. Ég fann þessa á myndinni hér fyrir ofan á Amazon, en ég ætla nú að fara á stúfana bráðum og leita að þessu hér heima. Það er svo yndislegt að sjá hvernig augun barnanna okkar ljóma þegar þau vita að þau hafa lært eitthvað - og ókei, ég skal viðurkenna það, ég er keppnismamma :p

þriðjudagur, 10. júní 2008

Fjölskyldan á borðum


Leirlistakonan May Lukt sameinar tvær ástríður sínar, keramik og myndskreytingar í fallegu djúpu diskunum sínum "Bespoke Silhouette Bowl From Your Photo".


Eins og nafnið gefur til kynna gerir hún diska eftir vangamyndum sem kaupandinn sendir henni. Diskarnir eru því afskaplega persónulegir og skemmtilegt að hafa þá við borðhaldið eða bara til skrauts.  

Diskarnir eru mjög notendavænir og þola bæði að fara í uppþvottavél og örbylgjuofn. 
Þeir eru tilvaldir í gjöf handa ástvinum... eða bara handa manni sjálfum.... ég væri til í að safna mér í sett af allavega 12 vangasvipum!
Diskarnir fást hérna.

sunnudagur, 8. júní 2008

Litlir listamenn

Við viljum öll leyfa sköpunargleði barna okkar að njóta sín og ég veit að strákurinn minn elskar að mála. Stundum er maður bara ekki alveg í stuði til að eyða helmingi meiri tíma í að laga til og þrífa eftirá en fór í listsköpunina sjálfa. Þá er gott að það er komið sumar og það er hægt að sleppa sér lausum utandyra. Hér er uppskrift að eins konar krítarmálningu sem er auðvelt að gera (af library collective):

Setjið 1/4 bolla af maísmjöli í nokkur ílát (sultukrukkur, skyrdollur, gosflöskur sem búið er að skera toppinn af, eða bara hvað sem þið eigið í eldhúsinu).

Hrærið 1/4 bolla af vatni út í maísmjölið (það gæti tekið smá tíma að fá það til að blandast vel, passið bara að setja maísmjölið í ílátin á undan vatninu).

Þegar blandan er orðin fín, bætið þá nokkrum dropum af matarlit útí hvert ílát. Endilega leikið ykkur líka með mismunandi litasamsetningar og styrk litanna.


Þá er ekkert eftir nema að byrja! Ef þið verðið leið á listaverkunum úti á stétt er ekkert mál að sprauta vatni yfir þau og þau hverfa eins og dögg fyrir sólu. En þar sem við búum á Íslandi er lítil hætta á að rigningin sjái ekki um þessa hlið málanna fyrir okkur.

þriðjudagur, 3. júní 2008

Persónulegt skart


Vefverslunin Warm Biscuit selur fallega og persónulega skartgripi. Þeir eru úr silfri og handgerðir af listakonunni Shannon Sunderland. 
Hægt er að bæta við nafni á armbandið við fæðingu hvers barns eða viðburðar eða versla bara einu lagi. 
Armbandið fæst hér.   



Einnig er hægt að senda þeim mynd á tölvutækuformi til að búa til hálsmen úr. Nafn eða texti er svo stimplaður eftir óskum hvers og eins. 
Hálsmenið fæst hér.

þriðjudagur, 27. maí 2008

Vissuð þið af þessu?

Sprintcuts eru með fullt af sniðugum myndböndum á YouTube, þar á meðal þetta.

mánudagur, 26. maí 2008

Heimasmíðað eldhús úr pappa!



Þetta fallega barnaeldhús er endurunnið úr pappakössum sem voru  á leiðinni á haugana, vírherðatrjám úr fatahreinsuninni og ýmsum afgöngum sem voru til heima. 
Hvorki eru notaðir naglar né lím, aðeins skeitt snilldarlega saman. Auðvelt er að taka eldhúsið aftur í sundur og fer ekkert fyrir því í geymslunni þar sem að það geymist flatt.



Á etsy er hægt að kaupa leiðbeiningarnar, sem eru 14 síður, á 8$ og eru þær svo sendar til manns í tölvupósti.
Þetta er fallegt, ódýrt og náttúruvænt! Kaupa hér takk!:o)

miðvikudagur, 21. maí 2008

Skiptiveski

Þegar strákurinn minn var nýfæddur þurfti ég að hafa troðfulla stóra tösku meðferðis í hvert skipti sem við fórum út... þið kannist við þetta. Nú þegar hann er að verða tveggja ára hendi ég yfirleitt bara einni bleyju ofan í mína eigin tösku og pakka af blautþurrkum þegar við bregðum okkur af bæ. Ég er þó að verða dáldið þreytt á að þurfa að gramsa í gegnum troðfulla tösku af bleyjum (ónotuðum vil ég taka fram)þegar síminn minn hringir þar sem ég sit í makindum mínum á kaffihúsi (því auðvitað man ég ekki eftir að tæma töskuna aftur þegar heim er komið).

Á hinni stórsnjöllu síðu Ikea Hacker fundum við þessa frábæru hugmynd að skiptiveski. Það eina sem þarf að gera er að kaupa eitt stykki lykclig geisladiskaveski, klippa flesta geisladiskavasana úr, skilja bara nokkra eftir fyrir smáhluti og tilbúið! Nú þarf ég bara að reyna að koma einhverju skipulagi á mitt eigið drasl.

þriðjudagur, 20. maí 2008

Skipulagið

Krakkar í dag eiga ótrúlega mikið safn af dóti ...sem á það til að dreifa sér út um allt. Ég átti mjög erfitt með að ná nokkurri stjórn á dótinu hjá eldri syni mínum þangað til ég fékk mér nokkur stykki af plastboxum hjá Rúmfatalagernum og Trofast skápana með geymslukössunum úr Ikea. Nú eiga Lego kubbarnir sitt box, Playmo dótið sinn geymslukassa, bílarnir sitt box o.s.frv. Ég er nokkuð viss um að svona sé kerfið á all flestum barnaherbergjum enda er þetta mjög þæginlegt bæði uppá tiltekt og svo er skipulagið bara alveg ágætt.
Mér finnst þessir kassar samt taka dálítið mikið pláss og er þetta ekkert rosalega smart. 
Simon Maidment hefur hannaði ofsalega sætan bekk í barnaherbergi sem er um leið hirsla. Þetta er eitthvað sem ég væri til í að hafa í berbergjum strákanna minna. Hirsla sem þjónar tveimur hlutverkum og er líka augnayndi. 

Roll-top Bench fæst hérna 

föstudagur, 16. maí 2008

Leikmottur


Það eru til ógrynnin öll af leikmottum og flestar eiga þær það sameiginlegt að vera mjög litríkar, sumar hverjar með innbyggðum hringlum, tækjum og tólum sem mynda alls kyns hljóð og dósaútgáfur af þekktum barnalögum. Við keyptum okkur eina slíka fyrir strákinn okkar þegar hann var um þriggja mánaða gamall og héldum að hann yrði hæstánægður með allt þetta fjör. Annað kom á daginn og það var ekki fyrr en við breiddum hvítt teppi yfir mottuna að hann fór að una sér á henni (hún var að öðru leyti mjög þægileg þar sem hún var með uppblásanlegum hring innaní svo það var hægt að stilla stuðninginn alveg eftir hans þörfum). Þetta sýndi okkur svo ekki var um villst að það var rétt það sem við höfðum lesið, að börnum liði ekkert sérstaklega vel með svona mikið áreiti og kysu fremur rólegri kringumstæður með hnitmiðaðri örvun (til dæmis á eitt eða fá skynfæri í einu).
Þegar ég sá þessar leikmottur á kokokaka hugsaði ég með mér að svona myndi ég vilja fá fyrir næsta barn. Í fyrsta lagi eru þær svartar og hvítar sem á að vera það sem fangar athygli og örvar þau nýfæddu mest og best, í öðru lagi er hægt að fjarlægja og færa til leikföngin sem fylgja (þau eru fest á með frönskum rennilás) og í þriðja lagi, þá eru þær hin mestu stofustáss.
Kokokaka síðan er öll á þýsku og hún er ekki mín sterkasta hlið. En mér skilst að það sé hægt að panta þetta þar. Annars væri nú ekki flókið að sauma svona sjálfur!

miðvikudagur, 14. maí 2008

Hannaðu þitt eigið letur


Á blogginu hjá swissmiss var póstur um Fontifier sem er ótrúlega sniðug síða. Þar getur maður hannað sitt eigið letur, komið rithöndinni í lyklaborðið eða bara nota hugmyndaflugið. Á myndinni fyrir ofan hefur Grant búðið til letur eftir rithönd afkvæmisins.

þriðjudagur, 13. maí 2008

Frískaðu upp á tuskudýr heimilisins


Flest börn eiga að minnsta kosti eitt tuskudýr sem þau geta ekki sofnað án. Oft á tíðum verður besti vinurinn skítugur og illa lyktandi eftir allt knúsið og þvælinginn með barninu.

Á Ohdeedoh rákumst við á tvær leiðir til að fríska upp á tuskudýrið á öruggan hátt:

Leggðu tuskudýrið á handklæði og dreifðu yfir það matarsóda. Vefðu það inní handklæðið og leyfðu því að sofa þar yfir nótt eða hvíla sig þar meðan barnið er á leikskólanum. Annar möguleiki - settu maíssterkju í poka og settu tuskudýrið í pokann. Hristu pokann til að dreifa maíssterkjunni og leyfðu tuskudýrinu að hvíla sig í pokanum í nokkra klukkutíma.


Áður en barnið fær tuskudýrið sitt í hendurnar aftur er mikilvægt að dusta af því leifarnar af matarsódanum eða maíssterkjunni og ætti það þá að vera orðið hreint og fínt.


Hin leiðin er náttúruleg og auðveld leið til að fríska upp á tuskudýr heimilisins. Farðu einfaldlega með það út og dustaðu dýrið.