fimmtudagur, 26. júní 2008

Að læra stafina

Ég og strákurinn minn vorum að koma úr tveggja ára afmæli hjá syni vinkonu minnar. Það var auðvitað ofsalega spennandi að fá að skoða dótið hans og ég sat inni í barnaherbergi með þeim tveimur guttum í smástund. Afmælisbarnið átti kassa fullan af eins konar gúmmíbókstöfum og rétti mér stoltur einn og sagði Ká! Og viti menn, það var einmitt stafurinn K sem hann hafði rétt mér. Ég fór að sýna honum aðra stafi og spyrja hvað þeir hétu, og alltaf kom hann með réttan staf. Mér fannst þetta alveg stórkostlegt og um leið og minn litli var sofnaður settist ég við tölvuna til að sjá hvar ég gæti fengið svona. Mér tókst nú ekki að finna þá í neinni íslenskri búð, en ég er nú viss um að þeir fáist í flestum leikfangaverslunum og jafnvel bókaverslunum. Ég fann þessa á myndinni hér fyrir ofan á Amazon, en ég ætla nú að fara á stúfana bráðum og leita að þessu hér heima. Það er svo yndislegt að sjá hvernig augun barnanna okkar ljóma þegar þau vita að þau hafa lært eitthvað - og ókei, ég skal viðurkenna það, ég er keppnismamma :p

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæhæ ég skoða reglulega síðuna þína... En langaði að benda þér á að svona stafir fást í Tiger..

Nafnlaus sagði...

Held að það sé líka til í Einu sinni var. Svo er stafapúslið líka mjög vinsælt;)

hrafndís sagði...

segulstafirnir eru líka algjör snilld. Litli bróðir minn lærði þannig alla stafina 2 ára.

obbosí sagði...

Takk fyrir ábendingarnar, og takk fyrir að lesa :)