Sýnir færslur með efnisorðinu Mömmur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Mömmur. Sýna allar færslur

sunnudagur, 21. júní 2009

Hamingjan er...

... blómvöndur frá þriggja ára mömmustrák :)

sunnudagur, 7. júní 2009

Stórar stelpur...

My first set
...vilja líka leika sér í dúkkulísuleik. Og það geta þær gert á polyvore.com. Mig grunar að ég eigi eftir að eyða of miklum tíma hér!

föstudagur, 27. mars 2009

Gaman á hönnunardögum

Endilega kíkja í gömlu Rúgbrauðsgerðina um helgina!

föstudagur, 9. janúar 2009

Hot mama!

Þegar ég sá þessa mynd (á apt #34 og fadtony) fylltist ég söknuði til hælaháu skónna minna en samtímis fullvissu um að ég muni klæðast þeim á ný, og þá sem tveggja barna móðir. Ég á um tvö eða þrjú pör af (mjög svo flötum) skóm sem eru þægilegir fyrir mig núna (komin rúmlega 8 mánuði á leið), og fyrir skósjúkling eins og mig er það algjör kvöl og pína! Ég lít niður á skósafnið mitt á hverjum degi þar sem það safnar ryki neðst í skápnum mínum, og allt eftir því skapi sem ég er í þá stundina (eða mínútuna) gerir það mig ægilega dapra eða ógurlega hamingjusama.
Það getur verið dálítil þraut að vera í hælaháum skóm þegar maður er á ferðinni með börn, en það er alveg hægt. Veldu þér þægilegt par (þau eru til) og hafðu nokkra hluti í huga: Kerrur og vagnar eru mikil hjálp því það er hægt að styðja sig við þá. Ekki plana langa göngutúra. Gerðu ráð fyrir nokkrum stoppum (kaffi fyrir þig, mjólk eða ávaxtasafi og hollur biti fyrir börnin - til að forða þeim frá vandræðum). Ef veðrið er gott, skelltu þá þægilegum sandölum í töskuna, þú gætir orðið ótrúlega þakklát fyrir það og þá hefurðu allavega verið skvísuleg hluta af leiðinni!

Smá sýnishorn af uppáhalds.


Draumurinn. Myndin er tekin af obbosí-vinkonu minni í Absolute Vintage í London. Hún er eina manneskjan m ég þekki sem er meiri skósjúklingur en ég!

P.S. Ég skrifaði þennan póst áður á lítið hliðarverkefni sem ég er með í gangi, Not Your Goddess. Endilega tékkið á því líka :)

laugardagur, 15. nóvember 2008

Skiptitöskur fyrir skvísur


Það verður að segjast að skiptitöskur eru sjaldan smart og oftast eru þær ekki merkilegri en venjulegir bakpokar. Þess vegna fæ ég fiðring í magan við að skoða skiptitöskurnar hjá Miabossi - diapers in disguise.

Þar er mottóið að hanna fallegar töskur sem um leið eru praktískar skiptitöskur og tölvutöskur! 
Með hverri tösku fylgir tvennskonar skipulag sem er hægt að skipta út eftir þörfum.


Hér sjáið þið þegar taskan er nýtt sem skiptitaska.



.

og hér þegar hún er nýtt sem tölvutaska.

Hér getið þið skoðað mismunandi gerðir sem eru í boði hjá Miabossi og verslað

mánudagur, 18. ágúst 2008

Njóttu brjóstagjafaþokunnar


Á Amazon.com fann ég tilvaldna gjöf handa einhverri af nokkrum vinkonum mínum sem eru með barni. Gjöf sem ég hefði alveg viljað eiga í öllu panikinu þegar mitt kríli fæddist.

Ég átti voðalega erfitt með að muna allt og ekkert, hvort sem það var hvenær barnið drakk, svaf lengi eða lítið, ropaði kröftuglega eða voða lítið, hvort ég las blaðið eða ekki og hvort ég þvoði mér yfir höfuð eða skipti um föt (gerði það nú en segi bara svona).

Itzbeen Baby Care Timer er með nokkrar stillingar. Allt í allt eru 4 minnismöguleikar þannig að hægt er að stilla hvenær var skipt seinast á barninu, hvenær það borðaði síðast, hvenær það sofnaði eða fékk t.d. lyfin sín. Einnig er tækið með takka sem heldur utan um á hvort brjóstið barnið var lagt á síðast.

Tækið vann iParenting Media Award árið 2007.

Tækið er hægt að panta á Amazon.com

mánudagur, 11. ágúst 2008

Brjóstagjöf

Það mætti ætla að brjóstagjöf væri það auðveldasta í heimi. Hvað gæti verið eðlilegra en að móðir og nýfætt barn hennar njóti brjóstagjafarinnar frá fyrsta augnabliki þeirra saman eftir fæðinguna? Samt sem áður eru margar konur sem eiga í miklum vandræðum með einmitt þetta. Sárar, blæðandi geirvörtur og ótrúlegur sársauki 8-10 sinnum á sólarhring ofaní hormónarússíbanann fyrstu vikurnar getur reynst sumum of mikið og þær gefast upp og grípa til pelans. Ég get sagt fyrir mitt leyti að eftir um 6 vikur var ég við það að gefast upp en fékk að lokum ótrúlega góða hjálp og endaði á því að vera með son minn á brjósti í 14 mánuði. Eftir að ég komst upp á lagið með að láta hann taka brjóstið rétt var þetta einmitt það auðveldasta í heimi og ótrúlega góð upplifun. Það er hægt að lesa sér til um brjóstagjöf bæði í bókum og á ýmsum vefsíðum til að undirbúa sig, til dæmis hérna. Ég hafði þó lesið allt sem ég komst í fyrir fæðinguna og sérstaklega eftir fæðinguna en það var ekki fyrr en ég sótti námskeið þar sem mér var sýnt nákvæmlega hvað ég átti að gera að mér tókst að láta hann taka brjóstið rétt. Og þvílík tilfinning að geta gefið barninu sínu brjóst án þess að langa til að öskra af sársauka! Á þessum tíma bjuggum við í London en það er auðvitað hægt að fá hjálp á ýmsum stöðum hérlendis. Boðið er upp á námskeið fyrir fæðinguna og einnig eru ráðgjafar til staðar á spítulunum (spurðu ljósmóðurina þína um þessa þjónustu). Það mikilvægasta er að leita sér hjálpar ef þú ert í vandræðum því það er nógu erfitt að sjá um nýfætt barn án þess að vera með áhyggjur af þessu líka.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Látið Buddha vísa veginn!

Það getur tekið á taugarnar að ala upp börn. Við höfum öll prófað að standa úti í búð með öskrandi krakka og mest langað til að henda okkur sjálfum öskrandi í gólfið eða hreinlega labba út. Börn virðast geta fundið upp allar mögulegar leiðir til að reyna á þolrif okkar og við bætist álag af væntingum sem við sjálf, samfélagið, fjölskyldur okkar og jafnvel makar gera til okkar.

Einhverja hjálp gæti verið að finna í þessari bók, Buddhism for Mothers, sem lofar mæðrum hagnýtum ráðum í erfiðum aðstæðum og leiðum til að ná jafnvægi í lífi sínu þegar allt virðist fara á hvolf.

mánudagur, 30. júní 2008

Mæður


Hér er áhugaverð grein um heimavinnandi vs. útivinnandi mæður:


Þetta er eflaust hægt að ræða endalaust. Hver er ykkar skoðun?


þriðjudagur, 24. júní 2008

Heimaslökun


Það er mikilvægt fyrir okkur öll að slaka á og endurnærast. Foreldrastarfinu getur fylgt mikil streita og þreyta, og því sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem eiga ung börn að huga að sjálfsrækt. Það er þó stundum auðveldara sagt en gert, því þegar börnin eru loks komin í háttinn bíða staflarnir af ósamanbrotnum þvotti, uppvaskið og tiltektin og glotta framan í okkur. Það er ekki auðvelt að finna tíma til slökunar en þó er þetta eitthvað sem allir ættu að gera á hverjum degi. Það gerir okkur hiklaust að betri foreldrum og betri manneskjum. Sem betur fer er stundum hægt að stytta sér leið og ég er mikill aðdáandi Aveda varanna í þessum tilgangi.

Slakandi ilmgjafar í Calming Body Cleanser fengnir úr rósum, vanillu og lofnarblómum gefa líkama og huga tækifæri á því að slaka á í hvert sinn sem þú þværð þér í sturtunni.

Soothing Aqua Therapy inniheldur steinefna ríkt salt sem er fengið úr Dauðahafinu en það hefur verið þekkt öldum saman fyrir endurnærandi eiginleika sína. Húðin verður mjúk og spennu og álagseinkenni hverfa. Leyfðu þér að slaka á í baði í 10-20 mínútur af og til, og ekki skemmir að kveikja á góðu ilmkerti og jafnvel setja róandi geisladisk á.

Þessar og fjöldinn allur af öðrum vörum, fást á ýmsum hárgreiðslustofum um land allt, og auðvitað í Aveda versluninni í Kringlunni. Ég mæli með því að kíkja þangað og athuga úrvalið.

sunnudagur, 15. júní 2008

Fallegar flíkur

Þessi fallegi kjóll er frá franska merkinu Maje. Hann er reyndar ekki hannaður sem meðgöngukjóll frekar en annar fatnaður frá Maje en eru fötin frá þeim samt sem áður ótrúlega vinsæl meðal barnshafandi kvenna og nýbakaðra mæðra. Ástæðan er að sniðin hjá þeim eru einstaklega klæðileg fyrir konur með kúlur framan á sér eða mjúkan vöxt þar sem að þau eru þröng og víð á "réttu stöðunum".
Kjóllinn fæst t.d. hérna 

Home mummy eru með afskaplega fallegan meðgöngufatnað og langar mig til að sýna ykkur nokkrar flíkur frá þeim sem mig myndi langa í ef ég væri komin með þriðju kúluna...

1. Merino ullarpeysa sem fæst t.d. hérna


2. Galakjóll eins og Jenna Frost úr Atomic Kitten´s klæddist á rauðadreglinum.
Kjóllinn fæst t.d. hérna


3. Og ekki er þessi svarti kjóll síðri....
Kjóllinn fæst t.d. hérna

þriðjudagur, 3. júní 2008

FjölskylduLEGÓstund

Á heimasíðu Boing Boing Gadgets sáum við þessa hugmynd um að leyfa börnunum að teikna fígúrur eða einhvern hlut og svo geta foreldrar og börn hannað fígúrurnar eða hlutinn saman.


Sonur Legósmiðsins "Moko" teiknaði þetta skemmtilega vélmenni sem faðir hans byggði svo úr legókubbum.


Frábær hugmynd að fjölskyldustund sem skilur svo miklu meira eftir sig en t.d. að sitja fyrir framan imbann yfir góðri teiknimynd.

Persónulegt skart


Vefverslunin Warm Biscuit selur fallega og persónulega skartgripi. Þeir eru úr silfri og handgerðir af listakonunni Shannon Sunderland. 
Hægt er að bæta við nafni á armbandið við fæðingu hvers barns eða viðburðar eða versla bara einu lagi. 
Armbandið fæst hér.   



Einnig er hægt að senda þeim mynd á tölvutækuformi til að búa til hálsmen úr. Nafn eða texti er svo stimplaður eftir óskum hvers og eins. 
Hálsmenið fæst hér.

föstudagur, 23. maí 2008

Kornabörn tala!


Hin ástralska Priscilla Dunstan hefur einstakt hljóðminni og gerði hún merka uppgötvun er hún eignaðist sitt fyrsta barn. Priscilla tók eftir því að barnið myndaði ákveðin hljóð, nokkru áður en grátur byrjaði, þegar það var svangt, þreytt, illt í maganum o.s.frv. Í fyrstu taldi hún að þetta væri aðeins tungumál barnsins hennar en fór svo að taka eftir þessum sömu hljóðum hjá öðrum börnum. Hún fór því að rannsaka uppgötvun sína nánar og sá að það skipti ekki máli frá hvaða landi börnin kæmu eða af hvaða kynþættu þau væru þau sögðu öll sömu hljóðin. Þessi hlóð væri þó sterkust þegar börnin væru undir 3 mánaða en ef börnin fengu rétt viðbrögð við hljóðunum þá héldu þau áfram að nota þau til tjáningar.
 
Neh - ég er svöng/svangur
Eh - ég þarf að ropa
Heh - það fer illa um mig
Eairh - ég þarf að prumpa
Owh - ég er þreytt/ur

Ef þið viljið fræðast meira um tungumál kornabarna þá getið þið séð viðtal sem Oprah Winfrey tók viðtal við Pricsillu og skoðað vefsíðuna Dunstan baby language.

Á YouTube fundum við líka viðtal með hljóðdæmum og er það hérna.

Róandi hljóð fyrir ungabarnið


Pediasleep er stór sniðug síða sem býður uppá róandi hlóð fyrir ungabarnið. Sum hljóðin eru eingöngu ætluð ungabörnum þar sem að þau virka ekki róandi á fullorðna en önnur koma bæði börnum og foreldrum ljúflega inn í draumalandið. 
Hægt er að fá að hlusta á hljóðprufur á síðunni og svo kaupa það í lengri útgáfu. Það er ekki hægt að segja annað en að úrvalið af hljóðum er bráðfyndið! Endilega kíkið á síðuna.

laugardagur, 3. maí 2008

Ævintýralegt rúm


Ég er greinilega eitthvað þreytt þessa dagana þar sem rúm fanga aðallega athygli mína. Á Kidshaus sá ég rúm drauma minna en það er hannað af Shawn Lovell. Rúmið kostar 15.000$ en þar sem er Shawn er búsett í Californíu gæti flutningskostnaðurinn orðið dálítið hár.

föstudagur, 2. maí 2008

Flott!!!

Á Ohdeeoh rakst ég á annað ungbarnarúm sem hægt er að tengja við stóra rúmið. Rúmið heitir Culla Belly og er hannað af Manuela Busetti og Andrea Garuti. Rúmið er svo stílhreint og flott að ég bara varð að sýna ykkur það þótt nýbúið sé að fjalla um Co-sleeper ...enda er þetta rúm ólíkt flottara! 
Ég veit því miður ekki hvar Culla Belly er til sölu en þegar ég googlaði fann ég bara endalaus blogg sem dásama rúmið ...og bættist nú enn eitt bloggið við!
...hér sjáið þið rúmið eins og vöggu. 
...og hér hvernig þessir 2 möguleikar virka. 

miðvikudagur, 30. apríl 2008

Öruggt og notalegt

Eins yndislegt og það er að eignast barn og sinna þörfum þess geta næturnar verið ansi slítandi. Það er því gott að reyna að gera lífið eins einfalt og hægt er til að maður glaðvakni ekki í hvert sinn sem litla barnið þarf að drekka. Sjálf þekki ég vel hvað það getur verið slæmur vítahringur að þurfa að berjast við að sofna aftur eftir eina af nætugjöfunum áður en að litla krílið vaknar aftur á ný til að drekka. 

Sumir láta litla barnið sofa á milli í hjónarúminu svo auðvelt sé að skella því á brjóst þegar svengdin kallar. Aðrir hafa vögguna við hliðina á rúminu og sækja svo barnið þegar það vill næringu og hlýju. Sjálf glaðvaknaði ég í hvert skipti sem ég þurfti að ná í litla karlinn minn úr vöggunni og veit ég því að ungbarnarúmið sem sýnt er hér að ofan hefði gert kraftaverk fyrir minn svefn.

Ungbarnarúmið er fest við hjónarúmið þannig að með lítilli fyrirhöfn er hægt að leggja barnið á brjóst. Þetta er alveg jafn auðvelt og ef barnið svæfi uppí. Það sem er ennþá betra er að barnið hefur samt sem sitt pláss og því engin hætta á að barnið lendi undir foreldrunum á meðan þau sofa, og þarf því enginn að vera andvaka yfir því! Til eru margar útgáfur á þessum rúmum en þetta tiltekna rúm heitir Babybay og fæst t.d. í Babysam í Danmörku. Hægt er að panta það  í gegnum Babysam á Íslandi.

mánudagur, 28. apríl 2008

Hjólað í vinnuna, 7.-23. maí


Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarátakinu “Hjólað í vinnuna”. Megin markmið átaksins er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Í ár fer átakið fram 7.-23. maí. Ég ætla að taka þátt og hjóla með guttann á leikskólann og svo í vinnuna, en ég þoli ekki spandex og skærgula vindjakka. Svo ég ákvað að sækja innblástur á Copenhagen Cycle Chic (bæði ég og sá stutti munum þó vera með hjálm - að sjálfsögðu).


Í háum hælum og pilsi

Ein með nýfætt

Líka í vondu veðri

Með innkaupapokana

Á rauðu ljósi

Hér er pláss fyrir tvö

Líka fyrir bankastarfsmenn :)

Já þeir kunna þetta Danirnir! Svo sjáum við hvernig gengur, hver veit nema maður selji bara bílinn og fari að gera þetta svona. Gott fyrir budduna, gott fyrir heilsuna og gott fyrir umhverfið!!!

þriðjudagur, 22. apríl 2008

Sumarið er að koma


Já, það hefur eflaust ekki farið fram hjá mörgum að sumarið er á næsta leyti. Ég er hins vegar alltaf jafn sein til að fara að huga að línunum fyrir þennan tíma þar sem léttur fatnaður ræður ríkjum og fer að sjást í bert hold hér og þar. Auðvitað er þetta eitthvað sem maður á að hafa í huga allt árið og reyna að lifa heilsusamlegu líferni, en betra er seint en aldrei hef ég alltaf sagt. Og í ár hef ég ákveðið að hafa þetta dáldið skemmtilegt og hreinlega ganga í barndóm. Ég fór í Hagkaup og keypti mér húla-hring og stend nú hvert kvöld og skemmti manni og barni með undurfögrum magasveiflum. Einnig gróf ég upp gamalt sippuband sem ég á og er að telja í mig kjark til að fara út á stétt og hoppa þar og skoppa - ég var nú góð í þessu í gamla daga!

Nú ekki dugar hreyfingin ein og sér, eitthvað þarf að gera við sætindaátinu og þá fannst mér tilvalið að láta lífrænu hrískökurnar sem ég á alltaf til handa drengnum mínum koma í staðinn fyrir súkkulaðið og sit nú og maula þær yfir sjónvarpinu/tölvunni. Þær eru frá Organix og eru bara hið mesta lostæti, búnar til úr lífrænt ræktuðum brúnum hrísgrjónum og sættar með lífrænum eplasafa og kanil.

Ég kaupi mínar í Krónunni vestur í bæ en ég hef séð þær í Nótaúni líka, ásamt öðrum frábærum Organix vörum.

Hvað gerið þið til að koma ykkur/halda ykkur í formi? Lumið þið á góðum ráðum fyrir aðrar mæður? Hvenær finnið þið tíma til að stunda líkamsrækt og hvað finnst ykkur hafa borið mestan árangur fyrir mittismálið? Endilega látið ljós ykkar skína hér í athugasemdunum að neðan.