miðvikudagur, 30. apríl 2008

Öruggt og notalegt

Eins yndislegt og það er að eignast barn og sinna þörfum þess geta næturnar verið ansi slítandi. Það er því gott að reyna að gera lífið eins einfalt og hægt er til að maður glaðvakni ekki í hvert sinn sem litla barnið þarf að drekka. Sjálf þekki ég vel hvað það getur verið slæmur vítahringur að þurfa að berjast við að sofna aftur eftir eina af nætugjöfunum áður en að litla krílið vaknar aftur á ný til að drekka. 

Sumir láta litla barnið sofa á milli í hjónarúminu svo auðvelt sé að skella því á brjóst þegar svengdin kallar. Aðrir hafa vögguna við hliðina á rúminu og sækja svo barnið þegar það vill næringu og hlýju. Sjálf glaðvaknaði ég í hvert skipti sem ég þurfti að ná í litla karlinn minn úr vöggunni og veit ég því að ungbarnarúmið sem sýnt er hér að ofan hefði gert kraftaverk fyrir minn svefn.

Ungbarnarúmið er fest við hjónarúmið þannig að með lítilli fyrirhöfn er hægt að leggja barnið á brjóst. Þetta er alveg jafn auðvelt og ef barnið svæfi uppí. Það sem er ennþá betra er að barnið hefur samt sem sitt pláss og því engin hætta á að barnið lendi undir foreldrunum á meðan þau sofa, og þarf því enginn að vera andvaka yfir því! Til eru margar útgáfur á þessum rúmum en þetta tiltekna rúm heitir Babybay og fæst t.d. í Babysam í Danmörku. Hægt er að panta það  í gegnum Babysam á Íslandi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

mér finnst þetta líka geggjað bara fyrir hinn hluta næturinnar, ef maður er með órólega krakka þá lítur þetta mjög freistandi út að þurfa ekki að fara á fætur eða rísa upp við dogg til að sinna eða hugga :)