Sýnir færslur með efnisorðinu Afþreying. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Afþreying. Sýna allar færslur

sunnudagur, 7. júní 2009

Stórar stelpur...

My first set
...vilja líka leika sér í dúkkulísuleik. Og það geta þær gert á polyvore.com. Mig grunar að ég eigi eftir að eyða of miklum tíma hér!

mánudagur, 2. febrúar 2009

Erró og Ilmur

Ilmur Stefánsdóttir og kubbarnir

Mig langaði til að benda ykkur á einstaklega skemmtilega sýningu sem er í Hafnarhúsinu. Ég læt mér nægja að afrita textann sem er inni á síðu Listasafns Reykjavíkur þar sem hann lýsir sýningunni nokkuð vel:)

ERRÓ - MYNDASPIL 

Fjölskylduvæn sýning sem Ilmur Stefánsdóttir listamaður á veg og vanda að. Á sýningunni bregður Ilmur á leik með nokkur af stærri verkum Errós, brýtur þau niður í stóra, handhæga kubba sem hægt er að raða aftur samkvæmt frummyndinni, sem hangir á veggnum eða skapa ný verk. Kubbarnir eru mjúkir og bjóða upp á fleiri notkunarmöguleika, t.d. að búa til sófa, borð, turna eða hvaðeina annað. Á veggjum sýningarsalarins eru einnig hugmyndir að leikjum sem lúta að myndefni kubbana, eins og að finna ákveðnar persónur, hluti og fyrirbæri og raða þeim saman og mynda þannig nýtt listaverk.


mánudagur, 8. desember 2008

Draumur hverrar konu!

Ég rakst á alveg ótrúlega síðu í dag. Hér geturðu hlaðið inn mynd af sjálfri þér og manninum þínum og séð hvernig barnið ykkar mun líta út! Þar sem ég á nú þegar barn með manninum mínum fannst mér það nú ekki nógu spennandi, svo hér sjáið þið hvernig barnið mitt og Brad Pitt myndi líta út!

Þá á ég bara eftir að athuga með Johnny Depp, Matt Damon, Gael Garcia Bernal, Christian Bale, Jake Gyllenhaal (namm namm)... Þetta verður gaman!

föstudagur, 3. október 2008

Að hætta með bleyju... á japönsku!

Ég er ekki viss hvort að þetta sé auglýsing, barnaefni eða bara grín! Ég googlaði "potty training" og þetta var eitt af því fyrsta sem kom upp.

mánudagur, 23. júní 2008

Hverjum líkist dúkkan?


Hjá Uncommon Goods eru til sölu dúkkur sem maður fær sjálfur að ákveða útlitið á. Dúkkunum fylgja video leiðbeiningar og efni til að vinna þær. 
Væri ekki gaman að útbúa dúkkur sem líkjast hverjum og einum í fjölskyldunni?
Dúkkurnar fást t.d. hérna

mánudagur, 2. júní 2008

Heimatilbúið


Það er ýmislegt hægt að búa til heima til að hafa ofanaf fyrir börnunum okkar. Gömlu góðu sápukúlurnar geta verið endalaus skemmtun; hver getur blásið stærstar/flestar og svo er auðvitað gaman að elta þær líka. Ég fann þessa barn(augna)vænu uppskrift að sápukúlulegi á Wikipedia.

60 ml barnasjampó
200 ml vatn
45 ml maís síróp (veit ekki hvort aðrar sírópsgerðir virka)


Nú svo er auðvitað trölladeigið, sem er svo rammsalt að fæst börn fá sér aftur eftir að hafa bragðað á því einu sinni. Flestir hafa einhvern tíman búið þetta til, en það sakar ekki að rifja upp uppskriftina:
1 bolli vatn
1 bolli hveiti
1 bolli salt
1 msk matarolía
svo má bæta við matarlit, ef vill, hér á myndinni hefur líka verið sett smá glimmer með - ekki slæm hugmynd fyrir litlar prinsessur!

fimmtudagur, 29. maí 2008

Töff föndur


Marshall Alexander er grafískur hönnuður sem hannar pappírsleikföng í frístundum. Hann er góðhjartaður maður og leyfir öllum að eignast flottu hönnuninni hans frítt. Það eina sem við þurfum að gera er að prenta út á A4 blað, klippa, brjóta, líma og leika.
Leiföngin er hægt að nálgast hér

föstudagur, 9. maí 2008

Stuðlar


Stóri strákurinn minn hefur afskaplega gaman af því að byggja. Það er alveg sama hvort það eru pínu litlir lego kubbar, stórir trékubbar eða sófapullur, allt virkar sem byggingarefni. Þegar ég fór á útskriftarsýninguna hjá Listaháskóla Íslands sá ég fyrirtaks byggingarefni fyrir hann. Það var veggurinn Stuðlar eftir Friðgerði Guðmundsdóttur. Veggurinn er búinn til úr einingum úr bylgjupappír sem er krækt saman. Einingarnar eru léttar, stöðugar og stórar.... og það sem er stór kostur... það fer ekkert fyrir þeim þegar maður pakkar þeim aftur saman! 

Einingarnar eru framleiddar í hvítu, bláu og appelsínugulu og verða til sölu í Epal



Þetta glæsilega virki byggðum við mæðginin saman.



Byggingameistarinn vildi gera glugga.



Og hérna er frjáls aðferð í turnasmíði!

sunnudagur, 4. maí 2008

Litlir pólitíkusar


Býr lítill forsætisráðherra í barninu þínu? Þá er ekki seinna vænna fyrir metnaðarfulla foreldra að fara að þjálfa upp kappræðulistina og hér er fullkomið leikfang til þess. Bara klippa, brjóta, líma, einn tveir og tala út í eitt! Eða kannski er hægt að nota þetta í sögustundinni á kvöldin til að láta börnin sofna fljótar en nokkru sinni fyrr!

fimmtudagur, 24. apríl 2008

SHOWROOM REYKJAVÍK

Fatahönnunarfélag Íslands stendur fyrir sýningu í portinu í Hafnarhúsinu dagana 25. og 26. apríl undir nafninu SHOWROOM REYKJAVIK.
Fyrirmyndin að sýningunni eru erlendar sölusýningar sem fataframleiðslufyrirtæki taka þátt í til að koma vöru sinni á markað. SHOWROOM REYKJAVIK er þar með vísir að framtíðardraumum íslenskra fatahönnuða og fataframleiðenda.
Sýningin verður opnuð með mótttöku föstudaginn 25. apríl kl. 17-19. Sýningin er síðan einnig opin á laugardaginn 26.apríl frá kl. 10 til 17
Meðal sýnenda á SHOWROOM REYKJAVIK eru Andersen & Lauth, Cintamani, HANNA, EYGLÓ, Lykkjufall, Starkiller, Steinunn og 66° Norður


Það er nokkuð ljóst að við mæðgur látum okkur ekki vanta þangað á laugardaginn. Skemmtileg leið til að brjóta aðeins upp daginn og skella sér kannski á sumarísinn i vesturbænum á eftir.

laugardagur, 19. apríl 2008

Gaman að læra umferðarreglurnar


5 ára strákurinn minn kom heim afskaplega glaður eftir heimsókn hjá vini sínum um daginn. Hann sagði mér frá skemmtilegum tölvuleik sem þeir höfðu spilað og talaði um bíla og innipúka og ég skildi ekki neitt í neinu. Satt að segja var ég eiginlega bara hálf svekkt yfir því að orkumiklir 5 ára strákar hefðu bara setið inni í tölvuleik í staðinn fyrir að fá almennilega útrás fyrir orkuna. Þangað til ég áttaði mig á að auðvitað var hann að tala um Krakkana í Kátugötu, sem er kennsluefni fyrir leikskólakrakka í umferðarreglunum. Þeir höfðu þá sem sagt skemmt sér konunglega við að læra um umferðaröryggi í tölvuleik frá Umferðarstofu
Ég er ekkert svakalega hrifin af tölvuleikjum en auðvitað eru þeir ekki alslæmir. Sérstaklega ekki ef þeir kenna krökkunum eitthvað gagnlegt í leiðinni. 
Hérna eru umferðartölvuleikirnir.

laugardagur, 12. apríl 2008

Lærdómsríkir tölvuleikir

Námsgagnastofnun er með mjög sniðuga tölvuleiki fyrir börn og unglinga á heimasíðunni sinni namsgagnastofnun.is. Þessir leikir er ókeypis og leikur maður þá á netinu.

Ég veit svo sem ekki hvort að unglingar hafi áhuga fyrir að leika námstengda tölvuleiki þegar úrvalið á annarskonar tölvuleikjum flæðir um allt. Ég veit hinsvegar að námsfúsir leikskólakrakkar eins og 5 ára strákurinn minn hafa afskaplega gaman af stafa- og stærðfræðileikjunum, en við erum bara rétt að byrja að skoða úrvalið.

Leikjasafnið hjá Námsgagnastofnun fer ört stækkandi og eru flokkarnir: danska, enska, íslenska, landafræði, lífsleikni, myndlist, náttúrufræði, stærðfræði og ýmislegt.

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Laugardagsheimsókn á Kjarvalsstaði


Á laugardaginn var ákvað ég að leyfa kallinum að sofa frameftir og fara út með strákinn. Við byrjuðum á að fara á leikvöllinn á Miklatúni og löbbuðum svo yfir á Kjarvalsstaði. Þar er yndislegt kaffihús, en það besta er að þar er nægilegt pláss fyrir orkumikinn gaur að hlaupa um, fullt af dóti að leika sér með, bækur til að skoða og litir og blöð til að teikna. Já og listaverk auðvitað líka til að skoða. Við vorum mætt klukkan 10 þegar safnið opnar svo við höfðum staðinn næstum út af fyrir okkur.
Ég held þetta hafi verið í fyrsta sinn sem ég slappaði af með stráknum mínum á kaffihúsi; venjulega þarf ég að stoppa hann af svo hann fari sér ekki að voða í tröppum, velti einhverju um koll eða bara angri aðra gesti sem eru ekki vanir litlum ólátabelgjum.
Ekki skemmir að aðgangur er ókeypis, eins og á önnur söfn sem eru hluti af
Listasafni Reykjavíkur. Tilvalin helgarskemmtun.

mánudagur, 7. apríl 2008

Rigning úti?

Hér eru tvær góðar hugmyndir frá Ohdeedoh. Ef það rignir úti og börnunum leiðist, af hverju ekki að taka smá límband (til dæmis málningateip) og búa til inniparís? Eða fylla fat af þurrkuðum baunum og búa til spennandi gröfusvæði með vörubílum og öllu tilheyrandi?

föstudagur, 28. mars 2008

Gaman fyrir börn og fullorðna


Nú um helgina verður haldin hin vinsæla sýning Æskan og hesturinn í Reiðhöllinni í Víðidal. Sýningin er þó nokkuð umfangsmikil en reikna má með að á milli 200-250 börn á aldrinum 3-18 ára taki þátt í sýningunni og munu þau yngstu sýna í grímubúningum.

Fjölbreytt sýningaratriði munu koma víða að, það verður dansað og afreksknapar í yngri flokkum sýna listir sínar. Sýningarnar verða fjórar, á laugardag klukkan 13 og 16 og sunnudag klukkan 13 og 16. Meðal skemmtiatriða verða Hara systur, Magni og töframaður á öllum sýningunum.

Aðgangur er ókeypis.

Upplagt fyrir fjölskylduna að mæta og eiga góðan dag saman.