mánudagur, 22. september 2008

Öðruvísi lausnir í barnaherbergið

Það er enginn vafi á því að það er úr mörgu að velja þegar kemur að því að velja húsgögn í barnaherbregið. Sumum finnst úrvalið þó ekki nóg, og mörgum blöskrar verðlagið. Hvernig væri að virkja ímyndunaraflið og velja óhefðbundnar lausnir? Þannig er jafnvel hægt að spara heilmikinn pening og gera sitt fyrir umhverfið í leiðinni. Þetta sérstaka loftljós er til dæmis búið til úr gamalli þvottavélatromlu.

Hér hefur gamalt sófaborð verið nýtt undir leikfangaflóð barnsins á heimilinu. Kubbar og annað slíkt fá sinn stað í fötum undir borðinu og bækur, púsluspil og fleira sóma sér vel ofaná því. Sófaborð hafa einmitt mjög þægilega hæð fyrir börnin að sitja eða standa við á meðan þau kubba eða púsla.


Hér er annað skemmtilegt ljós sem gæti sómað sér vel í herbergi lítils ævintýrafólks. Maður gæti verið heppinn að finna eitthvað svona í Góða Hirðinum fyrir lítinn pening.

Nú svo má alltaf búa eitthvað til sjálfur, og yfir á Ohdeedoh er nú samkeppni í gangi um besta saumaverkefnið. Keppendur senda inn myndir af teppum, töskum, leikföngum eða öðru sem þeir hafa saumað og þar geta handlagnir sótt innblástur fyrir hina ýmsu hluti, t.d. bútasaumsteppi.

Engin ummæli: