Það eru til ógrynnin öll af leikmottum og flestar eiga þær það sameiginlegt að vera mjög litríkar, sumar hverjar með innbyggðum hringlum, tækjum og tólum sem mynda alls kyns hljóð og dósaútgáfur af þekktum barnalögum. Við keyptum okkur eina slíka fyrir strákinn okkar þegar hann var um þriggja mánaða gamall og héldum að hann yrði hæstánægður með allt þetta fjör. Annað kom á daginn og það var ekki fyrr en við breiddum hvítt teppi yfir mottuna að hann fór að una sér á henni (hún var að öðru leyti mjög þægileg þar sem hún var með uppblásanlegum hring innaní svo það var hægt að stilla stuðninginn alveg eftir hans þörfum). Þetta sýndi okkur svo ekki var um villst að það var rétt það sem við höfðum lesið, að börnum liði ekkert sérstaklega vel með svona mikið áreiti og kysu fremur rólegri kringumstæður með hnitmiðaðri örvun (til dæmis á eitt eða fá skynfæri í einu).
Þegar ég sá þessar leikmottur á kokokaka hugsaði ég með mér að svona myndi ég vilja fá fyrir næsta barn. Í fyrsta lagi eru þær svartar og hvítar sem á að vera það sem fangar athygli og örvar þau nýfæddu mest og best, í öðru lagi er hægt að fjarlægja og færa til leikföngin sem fylgja (þau eru fest á með frönskum rennilás) og í þriðja lagi, þá eru þær hin mestu stofustáss.
Kokokaka síðan er öll á þýsku og hún er ekki mín sterkasta hlið. En mér skilst að það sé hægt að panta þetta þar. Annars væri nú ekki flókið að sauma svona sjálfur!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli