sunnudagur, 25. maí 2008

Barnaafmæli


Strákurinn minn varð tveggja ára á dögunum og því var slegið upp veislu um helgina. Þar sem hann er svona lítill fæ ég enn að ráða skreytingunum og mig langar að halda honum frá teiknimyndafígúrutengdu efni eins lengi og ég get (börnin okkar verða fyrir nógu miklu auglýsingaáreiti svo maður fari nú ekki að bæta á það óumbeðinn).

Ég ákvað að hafa lautarferðar þema, fékk gamla rauðköflótta dúkinn hennar mömmu lánaðan, setti litlar samlokur og smákökur í körfur, afmæliskakan var skúffukaka sem var skorin út í fjóra bíla sem mynduðu bílalest og skreyttir með mismunandi litu nammi og afmælisdrykkurinn var sólberjasaft borin fram í gammalli danskri rjómaflösku. Punkturin yfir i-ið voru skreytingarnar í runnunum sem tóku á móti gestunum þegar þá bar að garði. Ég klippti út bíla í mismunandi litað karton, límdi beygðan blómavír aftaná með sterku límbandi og notaði vírinn til að festa bílana við greinarnar. Hann fékk að sjálfsögðu að hjálpa til við að setja bílana í trén og var það hin mesta skemmtun.
Stráksi var hæstánægður með alla bílana en ætli hann fari ekki að setja fram sínar eigin kröfur að ári liðnu. Ef svo fer sem horfir verður þema næsta árs annað hvort Bubbi Byggir eða Latibær.

Engin ummæli: