laugardagur, 5. apríl 2008

25 leiðir til að einfalda fjölskyldulífið


Allir foreldrar vita að börn geta að vissu leyti verið dáldið erfið. Þegar börnin koma inn í myndina aukast þvottarnir, matarinnkaupin, hreinerningarnar, gleðistundir og krísur, leikföng og drasl út um allt, foreldrafundir... í stuttu máli: lífið flækist!

Til að einfalda fjölskyldulífið hefur Leo Babauta sem er 6 barna faðir samið 25 reglur sem auðvelt er að fara eftir.


 1. Gerið börnin ykkar sjálfsbjarga - Það getur vel verið að það taki smá tíma að kenna þeim það sem til þarf. En til lengri tíma litið borgar það sig. Kennið þeim að fá sér sjálf morgunmat í stað þess að bera hann á borð fyrir þau. Kennið þeim að laga til inni hjá sér, vaska upp, gera hreint, þvo bílinn...

 2. Dagatal - Ef þú átt fleiri en eitt barn þarftu að leggja ótrúlega margt á minnið. Notaðu einfalt dagatal þar sem þú skrifar allt sem þú þarft að muna og líttu á það minnst einu sinni á dag. Sjálfur notar Leo Google Calendar.

 3. Dótakassar - Börnum fylgja leikföng. Leikföng út um allt hús. Settu dótakassa í þau herbergi heimilisins þar sem börnin leika sér mikið svo það sé auðvelt fyrir þau að henda dótinu sínu ofan í þá þegar þau langar ekki að leika sér með það lengur. Reyndu þó að láta það ekki á þig fá þó dót liggi hér og þar. Þetta fylgir bara.

 4. Lagið til jafnt og þétt - Kennið börnunum að laga til eftir sig. Leyfið þeim að drasla til og sóða út, en segið þeim líka inn á milli að nú eigi að laga til. Og það á að gerast áður en þau fara að horfa á sjónvarpið, spila tölvuleiki eða fara út að leika.

 5. Ró í kringum háttatímann - Börnum finnst gott að hafa lífið í föstum skorðum. Og engin rútína er mikilvægari en sú sem við notum til að fá börnin í háttinn. Hún gæti gengið út á að laga aðeins til, fara í bað, bursta tennurnar, fara í náttfötin og lesa eina sögu. Sögustundin getur verið sérstaklega góð til að róa sig niður eftir annasaman dag.

 6. Undirbúið næsta dag - Morgnar geta verið sérlega stressandi, bæði fyrir foreldra og börn, en þurfa ekki að vera það. Undirbúið eins mikið og hægt er daginn áður. Undirbúið morgunmatinn, hafið til fötin og sjáið til þess að skólatöskurnar séu tilbúnar.

 7. Ekki skipuleggja of mikið - Skipuleggið ekki hverja mínútu dagsins. Reynið að sjá til þess að það sé tími á milli allra atburða í dagatalinu, þannig er hægt að koma í veg fyrir stress.

 8. Setjið fjölskylduna í forgang - Taktu frá tíma til að vera með fjölskyldunni. Þetta gæti til dæmis verið í tengslum við kvöldmatinn eða einn dagur yfir helgina sem er eingöngu fyrir fjölskylduna.

 9. Einfaldur fatastíll - Kaupið föt sem passa saman. Haltu þig við einfaldar litasamsetningar. Þá verður auðveldara að klæða börnin vel og þvotturinn verður einfaldari. Lagið reglulega til í fataskápnum. Hendið gömlum fötum (eða gefið).

 10. Undirbúðu þig tímanlega - Reyndu að sjá fyrir hverju er von á og undirbúðu þig sem fyrst fyrir væntanlega atburði svo þú þurfir ekki að stressa þig eða börnin til að ná að gera allt.

 11. Vertu alltaf með matarbita í pokahorninu - Börn eru alltaf svöng. Sjáðu til þess að vera með gott og hollt snarl í farteskinu eins og kex, ost, ávexti, hnetur, gulrætur o.s.frv.

 12. Barnablautþurrkur - Lítil börn eru með óhreina fingur, hor í nebbanum og annað klístur sem oft vill klínast á ranga staði. Þó svo að þau séu hætt með bleyju er gott að vera með blautþurrkur innan seilingar.

 13. Hafið aukaföt tilbúin - Verið alltaf viðbúin óhappi eða óvæntum óskum um að fá að gista hjá vinum eða fjölskyldu. Hafið tilbúna tösku með aukafatnaði.

 14. Komið upp vikulegum venjum - Fyrir utan þær stundir sem helgaðar eru samveru með fjölskyldunni er ágætt að hafa fastar venjur fyrir hvenær og hvernig er lagað til, gert hreint, verslað, dútlað í garðinum o.s.frv. Það gerir vikuna fyrirsjáanlegri og kemur í veg fyrir óvæntar uppákomur sem geta pirrað og stressað eða á einhvern hátt raskað jafnvæginu.

 15. Munið að tala saman - Reynið að leysa vandamál í sameiningu. Til dæmis í matartímanum. Það gæti líka hentað að halda fjölskyldufund einu sinni í viku til að skipuleggja tímann sem þið eigið saman.

 16. Eyddu tíma með einu barni - Ef þú átt erfitt með að finna tíma til að vera með hverju barni fyrir sig skaltu reyna að taka tíma frá í dagatalinu. Notaðu tímann til að einbeita þér 100 % að henni eða honum. Það þarf ekki að vera neitt flókið, kannski bara göngutúr niður í fjöru eða um hverfið.

 17. Verið ein saman - Gætið þess að eiga tíma fyrir ykkur foreldrana saman. Það er auðvelt að verða svo upptekin af börnunum að þið gleymið hvort öðru. Látið það ekki gerast, því þá eyðileggið þið þau bönd sem eru grundvöllurinn fyrir fjölskyldu ykkar. Haldið sambandinu lifandi.

 18. Verið ekki of ströng - Leyfið börnunum að vera börn í stað þess að láta lífið snúast um reglur og rútínur. Reynið að lifa með því að börn drasla til, eru hávaðasöm og setja allt á annan endann.

 19. Lagið til saman - Gerið tiltektina að sameiginlegu verkefni fjölskyldunnar. Hér er ekki átt við daglega tiltekt heldur þegar kompur og kytrur eru teknar í gegn, hlutum er hent eða komið í endurvinnslu. Þetta skapar samkennd innan fjölskyldunnar.

 20. Eigið rólegar stundir heima - Passið ykkur á því að allur dagurinn fari ekki í að þjóta frá einum stað til annars. Verið saman heima. Gerið eitthvað rólegt eins og að horfa á bíómynd, spilið spil, farið í leiki, lesið fyrir hvert annað, lesið hvert fyrir sig. Það er hellingur af skemmtilegum hlutum sem hægt er að gera til að slappa af og hafa það gott saman.

 21. Skapið hefðir - Börn elska hefðir. Allt frá hátíðum til þeirra hefða sem þið skapið sjálf. Skapið hefðir sem fá sérstaka þýðingu og börnin muna þegar þau verða fullorðin.

 22. Gerið matseld og hreingerningar að sameiginlegu verkefni - Matseld og hreingerningar geta takmarkað tíma ykkar með börnunum. En þið getið líka séð þessi verkefni sem tækifæri til að vinna saman. Þar að auki er upplagt að nota tækifærið og kenna börnunum einhver mikilvægustu verkefni lífsins. Þið gætuð jafnvel gert það að leik. Sjáið til dæmis hversu fjlótt þið getið gert allt húsið hreint ef þið gerið það saman.

 23. Fækkið skyldunum - Ekki binda ykkur of mikið. Reynið að meta hvaða skyldur eru mikilvægar og veita ykkur gleði og hverjar eru einungis til trafala.

 24. Verið virk - Mörg börn sitja of mikið fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna. Virkið börnin ykkar og fáið þau út með ykkur. Farið í göngutúra og í sund. Ef þú ferð út að hlaupa leyfðu börnunum að hlaupa með - kannski bara hluta leiðarinnar eða leyfðu þeim að hjóla við hliðina á þér. Farið í kapp, gerið það skemmtilegt. Stuðlið að heilbrigðum og hressum börnum. Það þarf ekki að kosta neitt.

 25. Leggið áherslu á að vera og gera - ekki að nota - Kennir þú börnunum þínum að tengja skemmtilegar stundir einhverju sem kostar pening? Kennir þú þeim að einblína á efnisgæði? Það er allt í lagi að fara í bíó og fá sér pizzu en munið bara að fara líka með þeim út í náttúruna, út að leika í garðinum, lesa, segja sögur, teikna saman, þvo bílinn saman og fara á ströndina.

Þar hafið þið það, ráðin hans Leos Babauta. Lumið þið sjálf á góðum ráðum, hver er reynsla ykkar af fjölskyldulífinu með eitt eða fleiri börn?


Ein venja sem við höfum heima hjá mér er að ég og maðurinn minn skiptumst á að sofa út um helgar. Þannig fáum við bæði einn dag í viku þar sem við vöknum úthvíld og það hefur mikið að segja um vellíðan okkar og þar með hversu góðir foreldrar við erum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég á tvo litla stráka og er með stelpu sem sækir þann eldri einu sinni í viku á leikskólann og kemur svo heim og leikur við þá í svona 2 tíma á meðan ég laga til og fer í reddingar. Mæli með því!
kveðja, Erla