sunnudagur, 6. apríl 2008

Þú kannast við þetta!

Húsið er hljótt. Gólfin eru hrein (svona nokkurn veginn), þvotturinn er samanbrotinn, leikföngin eru á sínum stað. Litli engillinn þinn blundar vært. Loksins gefst þér tími til að setjast niður með kaffibolla og blöðin. Þú setur þig í stellingar, þú finnur hvernig þú slakar á. En... æ nei... af hverju vaknar hann núna, hann var að sofna...? Þú læðist að svefnherbergisdyrunum, kannski vantar hann bara snuðið sitt. Þú smeygir þér inn, finnur snudduna, stingur henni upp í hann og segir nokkur róandi orð, bíður... já hann er að sofna... Þakkar þínum sæla og læðist fram aftur.

Af hverju er það svo oft þannig þegar við setjumst niður og ætlum að eiga rólega stund, að barnið vaknar af blundinum sínum? Ég kann ekki svör við því en þeir eru margir kaffibollarnir sem hafa kólnað á eldhúsborðinu á meðan ég ruggaði vagninum, leitaði að snuði eða söng litla vögguvísu. Ef ég hefði átt svona bolla hefði ég kannski getað tekið upp þráðinn án þess að þurfa að byrja á að hita mér nýtt kaffi.




Bollinn er hannaður af japanska listamanninum Shinzi Katoh og kemur með lítilli skál sem hægt er að leggja ofan á bollann til að halda drykknum heitum lengur en ella, og að sjálfsögðu er líka hægt að nota hana undir ýmislegt góðgæti með kaffinu. Þessi fæst hjá
Three Potato Four en hægt er að nálgast fleiri á Shinzi Katoh UK, þar sem einnig fæst fjöldinn allur af öðrum vörum sem hann hannar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þetta er allavega fallegri bolli en þessir stál hitabollar, mann langar ekkert mikið að drekka kaffið sitt úr þeim svona dags daglega =/

Nafnlaus sagði...

Svo væri gott að setja eins og eitt stykki eplaköku í skálina og þá væri hún ylvolg þegar maður fengi loks kaffið sitt...

Nafnlaus sagði...

hahaha já það er góð hugmynd!

Nafnlaus sagði...

Þetta er ofsalega sniðug hugmynd, en er þá ekki alveg eins hægt að nota venjulega undirskál? þú getur líka alveg sett eplaköku á hana. Ég er ekki kaffikerling en ég hef gert það bæði með te og kakó.

obbosí sagði...

Æ jú, það er auðvitað hægt, ég er bara alltaf svo veik fyrir einhverju svona sem mætti halda að væri spes hannað bara fyrir mig :) Og svo finnst mér þær líka svo fallegar könnurnar hans ;)