mánudagur, 9. júní 2008

Frábærar hillur

Sá þessar frábæru hillur á yankodesign.com og vá hvað ég hefði gefið mikið fyrir að eiga svona hillur þegar ég var í námi í Flórens. Þá hefði sko ekki verið neitt mál að flytja milli íbúða endalaust.

PLoP hillan er hönnuð af Joyce Hong. Hillan er búin til úr umhverfisvænum rásuðum borðum og er ekki nema rétt um 1,8 kíló. Helsti kostur hillunar er sá að hægt er að fella hana saman þannig að auðvelt er að flytja hana á milli staða, jafnvel í strætó. Svo þegar heim er komið þá er nánast hægt að setja hana upp með einu handtaki og hönnunin er þannig að hún ber gríðarlegan þunga miðað við eigin þyngd. Það besta við hillustæðuna er að hægt er að fjölga hillunum uppí 6, 8 eða 10 og samt er ennþá hægt að brjóta hana saman að notkun lokinni. Efnið í hillunni er gert úr endurunnum pappamassa þannig að þegar námsárunum lýkur þá er hægt að halda áfram að nota hana eða hreinlega endurvinna hana eins og hún leggur sig.

Ég fann ekki út hvar hægt er að nálgast hilluna en sendi þeim email og sjáum hvort þeir svari ekki um hæl.

Engin ummæli: