fimmtudagur, 5. júní 2008

Skúra, skrúbba og bóna!


Það getur verið erfitt að finna tíma til að þrífa heimilið almennilega. Ég og maðurinn minn vinnum bæði fulla vinnu (og stundum meira en það), en reynum samt að halda kvöldum og helgum lausum við stórhreingerningar. Eitt besta ráð sem ég hef fengið er að fá barnapíu til að koma einn eða tvo eftirmiðdaga í viku og leika við strákinn á meðan ég sinni heimilisstörfunum. Ég er nýbyrjuð að reyna þetta, stelpan hefur komið til mín tvisvar, en strákurinn er ennþá að venjast henni svo það er ekki komin mikil reynsla á þetta enn. Ég fór hins vegar á stúfana (á Google) til að leita mér að góðum ráðum til að láta þrifin ganga hraðar fyrir sig og fann nokkur sem ég læt fylgja hérna:
Lagaðu til á meðan þú eldar. Gakktu frá hveitinu/sykrinum/kryddinu um leið og þú ert búin að nota þau. Ef þú hefur bara notað desilítramál til að mæla hveiti, er nóg að strjúka það að innan með rökum klút og ganga frá því. Settu líka notuð ílát og diska strax í uppþvottavélina, það minnkar draslið og þú færð meira pláss til að elda og baka. Maður nýtur líka matarins betur ef eldhúsið er nokkurn veginn hreint og fínt á meðan maður borðar.

Leyfið börnunum að taka þátt. Þau eldri geta hjálpað til við uppvaskið og þvottinn, en þau þurfa ekki að vera há í loftinu til að geta verið með. Eftir kvöldmatinn í kvöld lágu hrísgrjón út um allt gólf og þegar ég ætlaði að fara að ryksuga vildi strákurinn minn (rétt orðinn tveggja) endilega fá að leika sér með ryksuguna. Ég bara leyfði honum það, og viti menn, hann ryksugaði flest hrísgrjónin, eitt í einu, á meðan ég kláraði uppvaskið!

Reyndu að ná nokkrum verkum áður en þú ferð út á morgnana (getur verið mjög erfitt þegar maður er að reyna að koma sjálfum sér og barni/börnum út úr húsi á réttum tíma). Ég reyni þó að taka uppvaskið á meðan strákurinn fær sér morgunmat, það er hægt að kippa ruslinu með sér út, og svo er nú alltaf gott að venja sig á að búa um þegar maður fer á fætur. Það hjálpar líka mikið að koma ekki að öllu í drasli þegar maður kemur heim úr vinnunni og ætlar að fara að elda kvöldmatinn.

Þegar börnin eru í baði (ef þau eru það stór að þú þarft ekki að halda við þau á meðan þau eru í baðinu, en er nóg að þú sért inni hjá þeim og fylgist með þeim), getur þú haft þig til. Ég er farin að geta farið í sturtu með strákinn með mér inni á baði, hann dundar sér við að busla í vaskinum eða leikur sér með eitthvað dót. Svo er upplagt að skella honum í bað á meðan ég hef mig til, greiði mér og mála. Þetta ætla ég að notfæra mér um helgar, þar sem ég ætla nú ekki að fara að baða barnið á virkum dögum áður en hann fer í leikskólann.

Þetta fannst mér besta ráðið og ætla að notfæra mér það þegar strákurinn fær kvöldbaðið sitt. Ef hann fengi að ráða efast ég um að hann færi nokkuð upp úr. Þá er upplagt að nota tímann til að skrúbba vaskinn og klósettið.

Nú svo er auðvitað alltaf gott að vera með fastlagt hvenær hvað er gert, vera með eins konar stundaskrá fyrir heimilisþrifin. Það myndi ekki henta mér þar sem enginn dagur er eins og ég get ekki vitað fyrirfram hvort ég hafi alltaf tíma til að þrífa á fimmtudögum og kaupa í matinn á föstudögum eins og foreldrar mínir, en fyrir þá sem geta það er það afbragðsráð.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég brýt einmitt saman þvottinn á meðan börnin eru í baði (þvottasnúran er inni á baði).
Svo reyni ég alltaf að taka með mér eitthvað í leiðinni og færa á réttan stað þegar ég geng úr einu herbergi í annað... en dót ferðast ótrúlega á milli staða hjá barnafjölskyldum.
Ég væri til í fleiri sniðug ráð:)
Endilega deilið góðum ráðum.... plís!
Sonja

Nafnlaus sagði...

Ég veit um par (barnlaust) sem hefur viðurkennt og horfst í augu við vanhæfni sína til að ganga frá eftir sig. Þau eru með stóra kommóðu í forstofunni hjá sér þar sem tvær skúffur eru notaðar undir þetta venjulega, húfur, trefla og þess háttar, en svo eiga þau hvort sína skúffuna þar sem þau geta sett drasl hvors annars sem þau finna á víð og dreif um íbúðina. Þannig að ef þau finna ekki eitthvað sem þau eru að leita að geta þau alltaf kíkt í skúffuna og svo taka þau sig til annað slagið og ganga frá öllu úr skúffunni sinni.