þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Hugmyndir fyrir afmælisveisluna

Flest íslensk barnaafmæli fylgja fremur einfaldri uppskrift. Boðið er upp á afmælisköku og fleira góðgæti, vinum og fjölskyldum er boðið og allir skemmta sér vel saman. Eftir veisluhöldin er lagað til og vaskað upp og þegar börnin eru loksins búin að jafna sig á sykurvímunni og komin í háttinn hníga foreldrarnir niður í sófa og skella fótunum upp á borð. Fæstir eyða ótæpilegum fjármunum eða orku í herlegheitin, aðalatriðið er að barnið eigi skemmtilegan dag. Víða erlendis hefur eins konar samkeppni gripið um sig meðal foreldra sem reyna að halda stærri og stórfenglegri veislur en allir hinir. Börnin sjálf hafa gleymst í sýndarleiknum og foreldrarnir hálf sturlaðir af stressi. Nú er hins vegar komið fram það sem kallast "slow party movement" þar sem fólk er farið að slaka á kröfunum til sjálfs sín og farið að einbeita sér að því sem skiptir máli. Þó virðist fólk þurfa að styðjast við ákveðin þemu, sem getur auðvitað verið mjög skemmtilegt. Á Kidshaus fundum við nokkrar skemmtilegar hugmyndir að þemum og skemmtun í barnaafmælin:
  • Garðveisla þar sem börnin mála blómapotta og gróðursetja blóm
  • Bjóða upp á ferskan, lífrænt ræktaðan mat, í stað skyndibita
  • Til að sporna við sóun í lítils nýtar gjafir gefa foreldrar litla peningaupphæð upp í stærri gjöf.
  • Þú og barnið þitt skreytið og setjið saman gjafapoka eða "goodie bags" (þetta tíðkast mikið í veislum erlendis en ég hef ekki séð þetta í veislum hér).

Að lokum er boðið upp á sýnishorn úr afmælisveislu með japönsku þema, en það væri hægt að finna upp á ýmsu öðru, eins og t.d. sjóræningjaparý, listasmiðjuveisla með alls kyns föndri, lautarferð, íþróttapartý eða hvað sem manni dettur í hug. Það væri gaman að heyra hvað þið hafið gert skemmtilegt og óvenjulegt á afmæli barnanna ykkar.

Engin ummæli: